Evrópska ungmennagáttin
Upplýsingar og tækifæri fyrir ungt fólk vítt og breitt í Evrópu.

Finndu (og kræktu þér í) námsstyrk!

© kylebaker - Flickr, CC by 2.0
© kylebaker - Flickr, CC by 2.0
Þráirðu að gerast námsmaður í öðru landi en óttast að það kosti þig hvítuna úr augunum? Hér kemstu að því hvernig þú getur orðið þér úti um styrk og jafnvel hafið næsta skólaár í landinu sem þig dreymir um.

Það er mikilvægt að hafa í huga að ekki aðeins menntastofnanir veita styrki; þú skalt því ekki takmarka leitina við háskólann sem þú vilt læra í heldur svipast um eftir styrkjum frá einkareknum sjóðum og fyrirtækjum, til dæmis Microsoft.

 

Auk þess standa alþjóðlegum nemendum ýmsir styrkjamöguleikar til boða.Til dæmis veita yfirvöld í Bretlandi Chevening-styrkina, Þýskaland býður fjármögnun gegnum DAAD og í Ungverjalandi geturðu stundað nám við Balassi-stofnunina.

 

Erasmus+ (Erasmus Mundus – samvinnu- og samskiptaáætlun um háskólanám á meistarastigi) veitir styrki úr sjóðum ESB til náms í ýmsum námsgreinum á meistara- og doktorsstigi. Skoðaðu skrá framkvæmdastjórnarinnar yfir námsleiðir í boði á næsta skólaári. Ef þú sérð námskeið sem þér líst á þarftu að hafa samband við skólana sem bjóða upp á námið til að fá nánari upplýsingar, m.a. varðandi umsóknarskilyrði.

 

Langar þig til að bæta við reynslu þína og stunda nám í landi utan Evrópu? Styrkjavefgáttin hefur að geyma gagnagrunn með á annað þúsund styrkja sem eru í boði í löndum út um allan heim. Veldu námsstigið (frá framhaldsskólastigi fram yfir doktorsgráðu), landið sem þú ert frá og fyrirhugað námsland og í leitarvélinni koma upp þeir styrkir sem passa við þínar upplýsingar.

 

Ertu tilbúin(n) að sækja um?

 Hér eru nokkur góð ráð til að verða sér úti um námsstyrk:  

 1. Þú skalt hefja leit að styrkjum (og sækja um) eins tímanlega og hægt er. Oftast rennur umsóknarfresturinn út í byrjun ársins sem námið hefst. Þú skalt því ekki bíða til vors ef þú vilt styrk fyrir nám sem hefst í september.
   
 2. Sæktu um eins marga styrki og mögulegt er (en þó ekki nema að þú fullnægir skilyrðunum) Kannski heldurðu að umsækjendur verði svo margir að þú eigir ekki séns, en ef þú sækir ekki um getur verið að þú missir af einstöku tækifæri í lífinu. Og hver veit nema þú hafir heppnina með þér! Vogun vinnur, vogun tapar.
   
 3. Þá er að skipuleggja sig! Gerðu lista yfir tímamörk sem þú vilt alls ekki missa af og dragðu ekki fram á síðasta dag að útbúa umsóknina. Það tekur vissulega sinn tíma en þegar styrkurinn er í hendi sérðu ekki eftir fyrirhöfninni.
   
 4. Partýmyndirnar á Fésbókinni eru auðvitað bráðfyndnar, en þú ættir kannski að hreinsa til á síðunni þinni eða endurskoða stillingarnar til verndar einkalífsins. Slíkar myndir eiga það til að birtast við Google-leit og þó að vinirnir hafi gaman af þeim er kannski ekki tímabært að sá sem fer yfir umsóknina þína sjái þig í skemmtihamnum.
   
 5. Ekki taka nærri þér þótt þú fáir engan styrk. Reyndu bara aftur fyrir næsta skólaár eða hugaðu að öðrum fjármögnunarleiðum til að hrinda hugmyndum þínum í framkvæmd. Eða hvað með að gera árshlé og leggjast í ferðalög eða vinna sjálfboðastarf?

Útgefið efni: Fim, 19/03/2015 - 09:48


Tweet Button: 


Info for young people in the western balkans

Vantar þig ráðgjöf sérfræðings?

Ask us!