Evrópska ungmennagáttin
Upplýsingar og tækifæri fyrir ungt fólk vítt og breitt í Evrópu.

ESB-borgararéttur: vertu klár á réttindum þínum

© iStockphoto.com - Yuri_Arcurs
© iStockphoto.com - Yuri_Arcurs
Það þarf engar sérstakar aðgerðir til að verða borgari Evrópusambandsins; sá sem er ríkisborgari í einhverju ESB-landi er jafnframt ESB-borgari. Meira en 500 milljón manns í 28 löndum geta með réttu kallað sig ESB-borgara, en hvað ætli felist í því?

ESB-borgararéttur veitir ýmis mikilvæg réttindi. Sum þeirra, t.d. frjáls för, liggja í augum uppi og menn taka þeim oft sem sjálfsögðum hlut. En önnur réttindi hafa sitt að segja í okkar daglega lífi, t.d. reikiþjónusta á sanngjörðu verði eða rétturinn til að skila aftur vörum sem keyptar eru á netinu. 

 

Hér er listi yfir réttindi sem ESB-borgarar njóta:

 

  1. Kosningar til Evrópuþingsins og á sveitarstjórnarstigi: ef þú býrð í öðru ESB-landi áttu rétt á að kjósa og bjóða þig fram til Evrópuþingsins og í sveitarstjórnarkosningum, með sömu skilyrðum og ríkisborgarar í viðkomandi landi.
  2. Láttu þína rödd heyrast: þú getur haft forgöngu um eða stutt evrópskt borgarafrumkvæði (European Citizen's Initiative, ECI) í því skyni að framkvæmdastjórnin taki tiltekið málefni á dagskrá, þú getur lagt fram beiðni til Evrópuþingsins eða sent erindi til umboðsmanns Evrópusambandsins ef þú vilt koma á framfæri kvörtun.
  3. Frjáls för: þú getur farið í starfsþjálfun, stundað nám og unnið hvar sem er í ESB.
  4. Heilbrigðisþjónusta: þú átt rétt á að njóta heilbrigðisþjónustu og velja fyrirhugaða heilbrigðisþjónustu í hvaða ríki ESB sem er. Þú nýtur einnig góðs af þeim reglum sem gilda um öryggi matvæla í ESB.
  5. Réttindi neytenda: þú átt að geta treyst því að fá sanngjarna fyrirgreiðslu og ítarlegar og greinagóðar upplýsingar áður en þú festir kaup á vöru. Þú nýtur verndar við kaup á netinu, getur nýtt ýmis úrræði til að greiða úr málum ef eitthvað ber út af og nýtur góðs af reglum um vöruöryggi.
  6. Ferðalög: í ESB gilda reglur um réttindi farþega; þú nýtur sérstakrar verndar í sambandi við kaup á pakkaferðum og getur leitað eftir hjálp hjá ræðismanni eða sendiráði hvaða ESB-ríkis sem er ef þörf krefur. Ef þú býrð við fötlun eða hreyfihömlun áttu að geta ferðast án þess að þurfa að þola misrétti þess vegna.
  7. Fjarskipti: þú hefur rétt til fjarskipta um góðar símalínur á sanngjörnu verði hvar sem er í ESB. Þjónustuaðilum er skylt að gefa nýjustu upplýsingar á greinagóðan hátt svo að þú getir auðveldlega borið saman verð. Símafyrirtækinu ber að útbúa auðskilinn, skriflegan samning, þú getur skipt um þjónustuaðila án þess að breyta símanúmerinu og borgar sanngjörn reikigjöld hvar í ESB sem þú vilt nota símann þinn.
  8. Skilnaður yfir landamæri: þú getur reitt þig á skýra og fyrirsjáanlega málsmeðferð þegar þú velur í hvaða ríki þú gengur frá skilnaði; einnig er auðveldara að framfylgja og fá dómsúrskurðinn viðurkenndan í öðru ESB-ríki.
  9. Réttur fórnarlamba afbrota og réttlát málsmeðferð fyrir dómi: þú getur reitt þig á sérstaka vernd ef þú verður fórnarlamb afbrots og á réttláta málsmeðferð fyrir dómi hvar sem er í ESB.
  10. Upplýsingar og leiðbeiningar: þú átt rétt á að nota þitt eigið tungumál þegar þú hefur samband við stofnanir ESB og að fá upplýsingar og aðstoð.

 

Nánari upplýsingar um rétt þinn sem borgari í ESB og hvernig þú getur tekið þátt í evrópskum stjórnmálum má nálgast á vefgáttinni ESB-borgararéttur

Útgefið efni: Mið, 18/03/2015 - 15:31


Tweet Button: 

Skyldir tenglar


Info for young people in the western balkans

Vantar þig ráðgjöf sérfræðings?

Ask us!