Evrópska ungmennagáttin
Upplýsingar og tækifæri fyrir ungt fólk vítt og breitt í Evrópu.

“EVS ætti að vera upphafið að langskólanámi sem flestra”

Stefan Savcic hikaði ekki eitt andartak þegar samtökin sem hann starfaði með sem sjálfboðaliði í Brcko (Bosníu og Hersegóvínu) stungu upp á því að hann mundi fara og dvelja í tólf mánuði í Þýskalandi, fyrir milligöngu áætlunar evrópsku sjálfboðaliðaþjónustunnar (EVS). Kynntu þér hvernig þessi upplifun átti eftir að breyta lífi hans.

Hann var bara 22 ára gamall þegar hann ákvað að hleypa heimdraganum og yfirgefa Brcko í heilt ár til þess að starfa sem sjálfboðaliði á leikskóla í Halle (Þýskalandi). Nú, þegar hann er kominn aftur til Bosníu, þá er Stefan Savcic alvarlega að hugleiða að leggja stund á sitt háskólanám erlendis.

 

Hvar heyrðir þú fyrst minnst á EVS?

Stefan. – Það var þannig að þegar ég var að starfa sem sjálfboðaliði fyrir samtök í mínum heimabæ, Brcko (BiH) og þeir stungu upp á því að ég mundi sækja um að taka þátt í verkefni sem að samstarfssamtök þeirra í Þýskalandi stæðu að, þar sem ég mundi dvelja í heilt ár, þá þurfti ég ekki að hugsa mig um tvisvar: Ég samdi ferilskrána mína í hvelli og svo líka bréf til þess að útskýra áhuga minn á verkefninu og síðan sendi ég þetta til þýsku samtakanna. Hjá þeim fór fram visst valferli sem lauk þannig að ég var ekki valinn. Hinsvegar, þá hætti sá sjálfboðaliði sem þeir höfðu upphaflega valið við, þannig að þeir hringdu í mig mánuði seinna og buðu mér stöðuna.

 

Hvernig mundir þú lýsa þessari EVS reynslu þinni?

Stefan. – Hún var frábær! Þetta var í fyrsta skipti sem ég hafði yfirgefið heimabæ minn og reyndar Balkanskagann líka. Að búa í stórri borg var alveg ný upplifun fyrir mig, því þarna var allt sem hugurinn girntist fyrir hendi. Vinna mín á leikskólanum fólst aðallega í því að passa börnin, finna upp á leikjum fyrir þau auk þess sem ég lék oft fyrir þau á gítarinn minn. Enda þótt ég talaði enga þýsku í upphafi, þá naut ég mjög góðrar ráðgjafar frá samtökunum sem tóku á móti mér, sem svo aftur hjálpaði mér við að ná góðu sambandi við krakkana. Þannig að þetta var einkar ánægjuleg upplifun fyrir mig. Þess vegna ráðlegg ég þeim sem hafa eitthvað svipað í huga, að flýta sér hægt og velja sér verkefni þar sem þeim mun líða vel. Einnig tel ég að það sé grundvallaratriði að vilja gjarnan læra annað tungumál og að vera opinn fyrir því að kynnast öðruvísi fólki með annan hugsunarhátt.

 

Hvað lærðir þú svo í Þýskalandi?

Stefan. - Heilmikið. En fyrst og fremst að bjarga mér sjálfur. Foreldrar manns eru ekki lengur til staðar til þess að ráðskast með mann og bestu vinir manns eru líka horfnir. Þótt maður saknaði þeirra auðvitað, þá tel ég að eitt ár sé ekki ýkja langur tími til þess að dvelja fjarri fjölskyldunni, auk þess sem mér tókst að bindast traustum vináttuböndum við aðra sjálfboðaliða sem voru í sömu aðstöðu og ég. Ég lærði hvernig maður fer að því að bjarga sér í allstórri erlendri borg án þess að tal mál innfæddra reiprennandi og þegar verkefnið hafði runnið sitt skeið á enda, þá fannst mér ég hafa tekið miklum framförum í þýskunni. Þessi lífsreynsla breytti öllum viðhorfum og lífi mínu.

 

Mundir þú hvetja annað ungt fólk til þess að taka þátt í EVS?

Stefan. – Að sjálfsögðu, ég mæli með þessari lífsreynsla við alla. Venjan í heimalandi mínu er sú, að ungt fólk heldur beint áfram í háskólanám eftir að hafa tekið stúdentsprófið. Hinsvegar tók ég eftir því, að í löndum eins og Þýskalandi, þá tekur unga fólkið þar sér venjulega eins árs frí eftir stúdentsprófið, og margir bjóða sig fram til sjálfboðaliðsstarfa erlendis til þess að kynnast öðrum menningarheimum, áður en þau hefja langskólanámið. Ég tel að þetta væri mjög áhugavert sjónarmið fyrir unga fólkið hér á mínum heimaslóðum.

 

Evrópska sjálfboðaliðaþjónustan gefur manni góða innsýn á það hvernig maður á að standa að því að finna sér góða menntastofnun utan heimahaganna og maður kemst jafnvel í kynni við fólk sem getur hjálpað manni við að komast í nám erlendis.

Ég vil jafnvel ganga svo langt að segja að EVS ætti að vera upphafið að langskólanámi sem flestra.