Evrópska ungmennagáttin
Upplýsingar og tækifæri fyrir ungt fólk vítt og breitt í Evrópu.

Langar þig að fara til EB í vinnu?

Að ryðja burt hindrunum og flytja til Evrópusambandsins til að víkka sjóndeildarhringinn

Hafði þér einhvern tíma dottið í hug að flytja til EB til þess að starfa þar en vissir ekki hvernig þú ættir að snúa þér í því? Voru það kannski tungumálaerfiðleikar sem urðu þess valdandi að þú treystir þér ekki til að finna þér vinnu innan EB, eða kannski krafan um að verða sér úti um atvinnuleyfi?

 

Nú eða var ferðakostnaðurinn til EB of hár, eða stóðu launin sem fyrirtækið var tilbúið til að greiða ekki alveg undir væntingum? Kannski var þetta í fyrsta skipti sem þú þreifaðir fyrir þér með vinnu erlendis, eða þér finnst vandræðalegt að leita þér að starfi þar sem þú ert algerlega reynslulaus.
(Hvernig geta menn öðlast reynslu ef vinnuveitendurnir hafna því alfarið að ráða reynslulausa menn í vinnu?!) Samt sem áður, þá ættu allar þessar hindranir ekki að draga úr þér kjarkinn við að reyna!

 

Hvar á að byrja

 

Við bendum á EURES vefsíðuna sem mjög góðan stað til þess að hefjast handa, vegna þess að þar er að finna öll þau lausu störf sem birt eru á þeim vefsíðum sem starfræktar eru af hinu opinbera í EB-löndunum. Meðal annara vefsetra sem starfrækt eru á samevrópskum grundvelli má nefna Eurojobs, Eurobrussels, Euractiv og Jobs Europe, auk þess sem með fljótlegri leit á netinu, þá birtast fjölmargir aðrir ráðningarvefir á landsvísu í hinum ýmsu löndum.

 

Flest stórfyrirtæki á alþjóðlega vísu birta einnig á sínum eigin vef upplýsingar þau lausu störf sem í boði eru, þannig að mönnum er ráðlagt að fara inn á vef þeirra fyrirtækja sem þeir eru spenntir fyrir og athuga hvar lausar stöður eru á boðstólum. Stundum sjá stór- eða fjölþjóðleg fyrirtæki sér hag í því að ráða starfsmann sem ekki er heimamaður og kann að leysa úr vandamálunum í sambandi við að útvega nauðsynleg leyfi og vegabréfsáritanir. Auk þess er það vaxandi tilhneiging hjá fjölþjóðlegum fyrirtækjum að vinnumálið sé enska, jafnvel þótt enska sé ekki tungumál þess heimalands, þannig að ef enska er eitt af þeim tungumálum sem að þú talar, þá getur það orðið þér að talsverðu gagni.

 

Eins og fyrr er getið, þá getur það stundum verið allsnúið að finna sér launaða vinnu án þess að hafa hafa áður aflað sér reynslu. En með því að leggja fyrst stund á starfsnám eða taka þátt í sjálfboðaliðaverkefni til langs tíma, þá getur það þess vegna verið góð leið til þess að taka það sem maður lærði í skólastofunni í gagnið auk þess sem það hjálpar manni til þess að átta sig á því hvaða störf það eru sem maður hefur hug á að leggja fyrir sig og hver ekki. Einnig kemur það stundum fyrir að þeim sem eru í starfsþjálfun eða sjálfboðaliðar er boðin fastráðning, en að sjálfsögðu er ekki á vísan að róa í því efni.

 

Í staðinn fyrir að fara í starfsþjálfun hjá venjulegu fyrirtæki í atvinnurekstri, þá gæti það verið ágætis valkostur að gerast frekar sjálfboðaliði eða fara í starfsþjálfun hjá frjálsum félagasamtökum, en allt slíkt veltur auðvitað á því hvaða starfsvettvang þú hefur hug á að kjósa þér.

 

Á EB vefnum Drop'pin eru skráð mörg hundruð starfsþjálfunarstöður vítt og breitt um alla Evrópu, þannig að þar er því um að ræða góða stað til þess að hefja leit þína að starfsþjálfun. Síðan koma Erasmus Student Network, Eurodesk og Eurasmus vefsetrin sem öll innihalda gagnabanka um möguleika á starfsþjálfun.

 

Ef þú vilt hins vegar gerast sjálfboðaliði, þá er Evrópska ungmennagáttin einnig með gagnagrunn um evrópsk sjálfboðaliðaverkefni sem eru að leita eftir ungum sjálfboðaliðum – notaðu síuna til þess að finna þau verkefni sem eru á höttunum eftir sjálfboðaliðum frá þínu heimalandi. Á vefnum Alliance of European Voluntary Service Organisations eru líka hægt að finna tækifæri fyrir sjálfboðaliða.

 

Þar að auki, þá eru starfrækt tengslanet á landsvísu í flestum EB ríkjunum á milli þeirra samtaka sem hafa það á stefnuskrá sinni að bjóða upp á leit að sjálfboðaliðastörfum og fjölmörg þessara tengslaneta er að finna á European Volunteer Centre. Mörg frjáls félagasamtök skrá niður hjá sér tækifæri sem bjóðast til starfsþjálfunar og sjálfboðaliðastarfa á vefsíðum sínum.

 

Þú gætir jafnvel verið áhugasamur um að kynna þér sérstök verkefni þar sem boðið er upp á þjálfun ungs fólks með leiðtogahæfileika.

Loks ber þess að geta, að atvinnumöguleika og starfsþjálfun ber mjög oft á góma í umræðum á vefsíðum erlends vinnuafls, þannig að fólki er bent á að kynna sér slíka vefi, einkum í þeim borgum þar sem það hefur áhuga á að setjast að.

 

Skammtímavinna

 

Ef þig langar bara til þess að vinna erlendis á skammtímagrundvelli, þá gæti verið áhugavert fyrir þig að kynna þér möguleikana sem boðið er upp á af eftirfarandi gagnaveitum: Jobs Abroad og Transitions Abroad. Slík skammtímastörf eru í boði í langflestum EB ríkjum.

 

Enda þótt sumarleyfi og vinna fari ekki beinlínis vel saman, þá gætir þú engu að síður leyft þér að verja örlitlu af frítíma þínum til þess að auka við færni þína um leið og þú þénar smávegis pening aukalega. Hvort sem þú ert námsmaður eða atvinnulaus, þá gæti árstíðabundið starf komið sér vel og hjálpað upp á sakirnar. Hvort sem um er að ræða sumar- eða vetrarfrí, þá er hægt að finna nokkrar góðar ábendingar í þessari grein.

 

Íhlaupastörf

 

Ef þú hefur gaman af að vinna með börnum, þá gæti verið áhugavert fyrir þig að starfa sem au pair. Au pair manneskja er ráðin til þess að hugsa um börn og til þess að hjálpa til við heimilisverkin, fær í staðinn fæði og húsaskjól, auk vasapeninga og tækifæris til þess að læra tungumál og kynnast menningu heimamanna. Það eru ótal margir vefir þar sem boðið er upp á að finna au pair stöður.

 

Enskukennsla er einnig frábær leið til þess að geta búið erlendis um einhvern tíma. Rétt er þó að benda á það að margir málaskólar og stofnanir víðs vegar um Evrópu krefjast þess nú að menn séu handhafar TEFL skírteinis (Teaching English as a Foreign Language), en það er skírteini sem þú þarft að geta framvísað til þess að geta kennt ensku í landi þar sem enska er ekki þjóðtungan.

 

Vinnu- og dvalarleyfi og vegabréfsáritanir

 

Reglur um innflytjendur eru mjög mismunandi frá einu Evrópusambandslandi til annars. En til þess að gera fólki auðveldara að átta sig á þeim atriðum, þá býður EB innflytjendavefgáttin upp á heilmikið af upplýsingum sem ætlaðar eru þeim sem hyggja á að koma til EB, annaðhvort til vinnu, í ólaunaða starfsþjálfun eða til sjálfboðaliðastarfa. Þar er farið nákvæmlega yfir öll þau skilyrði sem þú verður að uppfylla, hvaða gögn verður að leggja fram, hvaða pappírar þurfa að liggja fyrir og hvaða leyfi þú þarft til þess að geta dvalist í EB.

 

Þar er einnig að finna tengla sem vísa á þær sérstöku upplýsingar og reglur sem gilda fyrir hvert einstakt EB ríki um sig.

 

Það er einnig ómaksins vert að fara inn á heimasíðu sendiráðs þess ríkis sem þig langar til þess að heimsækja.