Evrópska ungmennagáttin
Upplýsingar og tækifæri fyrir ungt fólk vítt og breitt í Evrópu.

Nokkur hollráð áður en þú gistir á farfuglaheimili

hostel
© Wasfi Akab - Flickr, CC by 2.0
Er nokkuð sem toppar farfuglaheimili (eða „hostel“) þegar maðu vill ferðast um heiminn og hitta annað fólk án þess að það kosti of mikið? Hér koma nokkrar góðar ábendingar til að gera þér dvölina eins ánægjulega og hægt er.

Þó að á sumum farfuglaheimilum séu sérherbergi eða litlir svefnsalir eru baðherbergi og salerni sameiginleg; ekki búast við að geta verið mikið út af fyrir þig. En farfuglaheimili hafa það fram yfir hótel að þar er heimilislegt andrúmsloft og hægt kynnast fullt af nýju fólki (ekki síst ef þú ert ein(n) á ferð). Og ef þér líkar ekki við það þarftu aldrei að sjá það aftur eftir að dvölinni lýkur. Þú hefur það eins og þú vilt!

 

Besta leiðin til að láta sér líða vel á farfuglaheimili er að halda ró sinni og blanda geði við hina gestina. Byrjaðu á starfsliðinu: það er oftar en ekki heimafólk sem veit hvað er áhugavert að skoða, hvar sé gott að borða eða best að skemmta sér. Kannski eru einhverjir gestanna til í að koma með þér í skoðunarferð eða jafnólmir og þú í að skemmta sér; þú gætir líka orðið þér út um góðar ferðaábendingar eða bara skipst á skemmtilegum ferðasögum.

 

Og til að tryggja að allt fari vel ættirðu að hafa eftirfarandi hluti með í farangrinum:

 

  • Enginn er sérlega hrifinn af að þurfa að troða í annarra manna hári í sturtunni eða fá fótasvepp; hafðu með þér töfflur! Við erum ekki að tala um splunkunýja leðursandala heldur ódýrar plasttöfflur sem þola vatn og sápu.
  • Það getur hæglega eyðilagt fyrir þér fríið ef þú vaknar á klukkutíma fresti því að þú heldur að einhver sé að stela dótinu þínu (tölum ekki um ef það gerðist í raun og veru); fáðu þér því hengilás á ferðatöskuna þína, bakpokann eða veskið, eða þá til að festa eigur þínar við rúmið. Geymdu peningaveskið þitt, vegabréfið, síma og annað verðmætt undir koddanum eða einhvers staðar á þér.
  • Háværar hrotur eiga það til að kalla það versta fram í þeim sem þarf að þola þær. Það eru því allir betur settir ef þú hefur með þér eyrnatappa og lokar óhljóðin úti (ef þú veist af eigin yfirburðum á hrotusviðinu en vilt samt gista á farfuglaheimili aukast vinsældir þínar talsvert ef þú dreifir eyrnatöppum meðal herbergisfélaganna).
  • Hafðu með þér eigið handklæði – og lök eða svefnpoka ef þú hefur tök á. Sum farfuglaheimili hafa þessa hluti á boðstólum en mörg þeirra eru engir snillingar í að halda þeim hreinum. Svo borgarðu yfirleitt eitthvað aukalega fyrir að leigja handklæði og lök.
  • Sumir þurfa endilega að kveikja á öllum ljósum þegar þeir koma inn eftir vel heppnað kvöld – einmitt þegar þú þarft að vakna snemma í flugið þitt; augnagríma getur forðað þér frá að vakna að óþörfu. 

 

Að síðustu: skoðaðu ummælin um farfuglaheimilið sem þú hefur í huga; það er besta leiðin til að komast hjá leiðinlegum uppákomum!

Útgefið efni: Fim, 19/03/2015 - 11:47Info for young people in the western balkans

Vantar þig ráðgjöf sérfræðings?

Ask us!