Evrópska ungmennagáttin
Upplýsingar og tækifæri fyrir ungt fólk vítt og breitt í Evrópu.

Gættu öryggis á leiðinni!

Group of young people
© shutterstock.com - Petrenko_Andriy
Öryggi þitt skiptir öllu máli, sama hvert leið þín liggur eða hverjum þú ferðast með. Skoðaðu þessar ráðleggingar og búðu svo um hnútana að ferð þín til útlanda endi ekki úti í móa.

1. Hafðu heilsu þína í huga. Mundu eftir að hafa Evrópska sjúkratryggingakortið (EHIC) með þér. Halaðu niður EHIC appinu; þetta ókeypis smáforrit leiðbeinir þér um þjónustu í landinu sem þú heimsækir. Ef þú ætlar út fyrir Evrópu, eða til lands þar sem EHIC gildir ekki, skaltu fá þér ferðatryggingu. Þú ættir líka að hafa með þér einfaldan skyndihjálparpakka með sáraumbúðum, joðáburði, sótthreinsunarbréfum o.þ.h.

 

Í öllum löndum ESB gildir neyðarnúmerið 112, sem hægt er að hringja í ókeypis frá hvaða síma sem er. Svarþjónustan er á ýmsum tungumálum, eftir því í hvaða landi þú ert.

 

Ef ferðinni er heitið á fjarlægan og framandi stað skaltu fara til læknis áður en þú leggur af stað og fá allar nauðsynlegar bólusetningar og upplýsingar um viðeigandi ráðstafanir í sambandi við heilsuvernd.

 

2. Vertu klár á rétti þínum. Hvort sem þú ferðast með lest, flugi eða skipi, þá gilda innan ESB reglur um réttindi farþega ef seinkanir verða, ferð er aflýst eða ef þú þarft á aðstoð vegna hreyfihömlunar að halda. Hér er líka farsímaapp um réttindi farþega sem má hlaða niður.

 

3. Ekki geyma alla peningana þína á sama stað.  Geymdu ekki allt reiðufé þitt og bankakort saman þegar þú ferðast, hafðu a.m.k. eitt kort og einhverja peninga á öðrum stað, helst ekki á þér. Ef þú týnir greiðslukortinu þínu, eða því er stolið, skaltu tilkynna það lögreglunni og hafa samband við bankann þinn til að láta ógilda það eins fljótt og hægt er.

 

4. Ekki geyma peningaveskið í rassvasanum. Þú sleppur frekar við vasaþjófa ef þú geymir veskið þitt í fram- eða innanvasa, sérstaklega ef hægt er að hneppa honum.

 

5. Geymdu skilríki á rafrænu formi. Skannaðu gögn eins og nafnskírteini, vegabréf eða vegabréfsáritanir og sendu í tölvupósthólfið þitt. Það tryggir þér aðgang að þeim þó að þú tapir frumgögnunum. Ef þú týnir nafnskírteini eða vegabréfi, eða því er stolið, skaltu tilkynna það hjá lögreglunni og hafa samband við nálægasta ræðismann eða sendiráð.

 

6. Vertu á verði gagnvart ókunnugum. Treystu ókunnugum ekki nema upp að vissu marki, dragðu ákveðna línu, t.d. að þú farir ekki með þeim í hættulegt borgarhverfi, né þiggir af þeim mat eða drykk. Taktu heldur aldrei nokkurn tíma við pökkum eða gjöfum frá ókunnugum.

 

7. Veifaðu ekki verðmætum hlutum. Það er óráðlegt að vera með dýra skartgripi eða í dýrum fötum eða með flotta myndavél um hálsinn; þetta á auðvitað alltaf við á ferðalögum en þó sérstaklega á ókunnugum stað. Forðastu að draga að þér óþarfa athygli og gera þig þannig að næsta fórnarlambi þjófa.

 

8. Ekki hafa föggur þínar eftirlitslausar. Það liggur líka í augum uppi að þegar þú ert í almennu rými ættirðu ekki að hafa farangur þinn og töskur liggjandi um á gólfinu eða hangandi á stólbaki. Merktu farangur þinn þannig að hægt sé að ná í þig og skildu ekki við hann fyrr en hann er innritaður.

 

9. Ekki veita mótstöðu. Ef svo óheppilega fer að þú verðir fyrir barðinu á þjófum skaltu láta af hendi peningaveskið þitt, úr, síma o.s.frv. Ef þú reynir að streitast á móti er hætta á að þú verðir fyrir meiðslum.

 

10. Gættu að því hvar þú notar greiðslukortið þitt. Í tölvum á almennum stöðum, svo sem á netkaffihúsum, geta leynst njósnaforrit sem skrá lyklaslögin og komast þannig yfir aðgangsorð þín.

 

11. Vertu í sambandi. Hafðu samband við þína nánustu reglulega og gefðu þeim upp ferðaáætlun þína. Þá vita þeir hvar á að leita ef eitthvað kemur fyrir þig. Nú eru reikigjöld og netaðgangur næstum alls staðar orðin ódýrari og því miklu auðveldara að halda sambandi við fólkið sitt.

 

12. Undirbúðu þig. Aflaðu þér vitneskju um áfangastað þinn og gakktu úr skugga um að þú hafir upplýsingar um öryggisatriði, staðbundnar venjur, hættuleg hverfi o.s.frv.

 

13. Haltu vöku þinni í almenningsfarartækjum. Gættu þín í yfirfullum neðarjarðarlestum, brautarstöðvum, lyftum, ferðamannastöðum, mörkuðum og annars staðar þar sem mikið er af fólki. Láttu lítið fyrir þér fara og vertu ekki á svipinn eins þú hafir tapað áttum, reyndu að sýna sjálfsöryggi jafnvel þótt þú hafir í alvöru villst. Ennfremur: Það er ekki ráðlegt að taka óopinbera leigubíla.

 

Og burtséð frá öllum góðum ábendingum máttu ekki gleyma því mikilvægasta: hafðu þína heilbrigðu skynsemi með í för!