Skip to main content

DiscoverEU

If you're 18 and a resident in an Erasmus+ Programme country, it's time to expand your comfort zone

Keppnisreglur DiscoverEU

Takk fyrir áhuga þinn. Umsóknartímabilinu DiscoverEU er nú lokið. Úrslitin voru kynnt í maí 2022 og þátttakendur voru gerðir grein fyrir þeim. Næsta umsóknarferli mun svo hefjast næsta haust (nánari dagsetningar verða tilkynntar síðar). Nú er bara um að gera að halda áfram að fylgjast með ef þú ert orðinn 18 ára, eða verður það síðar á þessu ári 2022. I haust verða 35.000 nýjum DiscoverEU-ferðapössum slengt í pottinn. Reglur og algengar spurningar verða uppfærðar í samræmi við það!

1. Lýsing

DiscoverEU er verkefni á vegum Erasmus+ áætlunarinnar. Markmið hennar er að þau 18 ára ungmenni, sem leggja upp í ævintýralegt ferðalag, þar sem þeim gefst kostur á að kanna fjölbreytileika Evrópu, sögu og menningararfleifð álfunnar, kynnast og tengjast fólki víðs vegar að og uppgötva sjálfan sig, fái þar með sterkt á tilfinninguna að þau tilheyri Evrópusambandinu.

Í apríl 2022 hyggjast framkvæmdastjórnin og framkvæmdaskrifstofa mennta- og menningarmála og hljóð- og myndmiðlunar (EACEA) velja til þátttöku að minnsta kosti 35.000 ungmenni sem uppfylla skilyrðin sem talin verða upp hér á eftir. Því unga fólki stendur til boða að sækja um á Evrópsku ungmennagáttinni. Umsóknarferlið stendur yfir frá fimmtudeginum 7. apríl klukkan 12:00 á hádegi (að miðevróputíma, CEST) til hádegis fimmtudaginn 21. apríl á hádegi (CEST).

Framkvæmdastjórnin mun sjá ungmennunum fyrir ferðapassa sem gerir þeim kleift að kynnast Evrópu á tímabilinu frá 1. júlí 2022 til 30. júní 2023, að hámarki í einn heilan mánuð.
Að öllu jöfnu munu umsækjendurnir ferðast með járnbrautarlestum. Engu að síður, og til þess að tryggja að sem allra flestir geti tekið þátt, þá gerir verkefnið ráð fyrir því að grípa þurfi til annarra flutningsmáta, eins og til dæmis ferja og hópferðabíla þegar þörf krefur, auk þess sem umhverfissjónarmið, tímamismunur og vegalengdir eru einnig tekin með í reikninginn.

Í undantekningartilvikum, eða þegar enginn annar ferðamáti stendur til boða, þá er veitt heimild til þess að ferðast sé með flugvélum. Þannig er reynt að tryggja að ungmenni sem búa á afskekktum stöðum eða eyjum geti tekið þátt í DiscoverEU. Frá og með fyrsta umsóknarferli ársins 2022 munu þeir umsækjendur sem valdir verða til þátttöku einnig fá afhent svonefnt DiscoverEU afsláttarkort.
Gildistími þess mun ákvarðast af ferðatímabili þeirra. Með því korti fæst afsláttur vegna aðgangs að menningarviðburðum, fræðslu- náttúru- og íþróttastöðum, almenningssamgöngum, vegna gistingar, fæðis, o.s.frv.

2. Gjaldgengir umsækjendur

Til þess að vera gjaldgengir, þá verða umsækjendurnir að vera:

 • orðnir 18 ára gamlir hinn 1. júlí 2022, þ.e. fæddir á milli 1. júlí 2003 og 30. júní 2004, að báðum meðtöldum,
 • á þeim tímapunkti sem val þátttakenda fer fram, ríkisborgarar eða búsettir til langframa í einhverju eftirfarandi landssvæða:

          -   Öll 27 aðildarríki Evrópusambandsins, auk eftirfarandi fjarliggjandi landssvæða Evrópusambandsins, en þeim tilheyra Franska Gvæjana (FR), Gvadelúpeyjar (FR), Martiník (FR), Réunion (FR), Mayotte(FR), Sankti Martin (FR), Asoreyjar (PT), Madeira (PT) og Kanaríeyjar (ES); eða;
          -   borgarar þeirra ríkja sem tengjast Erasmus+ áætluninni: Ísland, Liechtenstein, Norður Makedónía, Noregur, Tyrkland; eða;
          -   Þeir sem eru ríkisborgarar í einhverju hinna 27 Evrópusambandsríkja, og sömuleiðis löglega búsettir í einhverju þeirra landa eða yfirráðasvæða handan hafsins (YHH) sem tengjast Evrópusambandinu: Arúba (NL), Bonaire (NL), Curaçao (NL), Franska Pólýnesía (FR), Frönsku suðurhafs- og heimsskautasvæðin (FR), Grænland (DK), Nýja Kaldedónía (FR), Saba (NL), Sankti Bartólómeusareyjar (FR), Sankti Estatíusey (NL), Saint Martin (NL), Sankti Pierre og Miquelon (FR), Wallis- og Fútúnaeyjar (FR)..

 • fylli út umsóknareyðublaðið á netinu með réttu nafnskírteini sínu (ásamt kt), vegabréfsnúmeri eða staðfestingu á lögheimili sínu.

Þeir umsækjendur sem verða valdir geta aðeins hafið ferð sína að því tilskyldu að þeir:  

 • leggi af stað í ferðina frá einhverju þeirra landa sem eru gjaldgeng í DiscoverEU (sjá hér á undan) á þeim tímapunkti þegar val þátttakenda fór fram;
 • hafa í hyggju að ferð þeirra standi fyrir á bilinu frá einum degi og upp í heilan mánuð í heildina;
 • áforma að leggja leið sína til að minnst kosti eins þeirra landa sem gjaldgeng eru til þátttöku í DiscoverEU (sjá hér á undan) á þeim tímapunkti þegar val þátttakenda fór fram;
 • vera fúsir til þess að vera gerðir að svokölluðum DiscoverEU sendiherrum.

Þeir umsækjendur sem ekki uppfylla þátttökuskilyrðin verða ekki teknir til greina við úthlutunina þegar þar að kemur.

Upphaf DiscoverEU má rekja til tilraunaverkefnis á vegum Evrópuþingsins (2018-2020) sem hafði það að markmiði sínu að auka hreyfanleika og ferðaframboð til þeirra ungmenna sem væru nýorðin 18 ára gömul.

Vegna þeirra glimrandi undirtekta sem DiscoverEU hlaut á þessum upphafstíma sínum, þá var ákveðið að fella það inní Erasmus+ áætlunina (2021-2027).

3. Umsóknarferlið

DiscoverEU umsóknarferlið fer þannig fram að visst umsóknareyðublað verður opnað á Evrópsku ungmennagáttinni. Athugið að það er hvorki hægt að leggja inn umsókn á undan eða á eftir umsóknartímabilinu.

Alls eru 7 þrep í þessu umsóknarferli:

 1. Fyrst þarf að ganga úr skugga um hvort viðkomandi umsækjandi sé gjaldgengur, sem hefur það í för með sér að hann verður beðinn um að fylla út fæðingardag sinn, þjóðerni og staðfest lögheimili. Ef þær upplýsingar stemma ekki við þátttöku skilyrðin sem talin eru upp í 2. grein ‘Gjaldgengir þátttakendur’, þá verður þeim ekki heimilað að stíga næsta skrefið í umsóknarferlinu. Auk þess verða þeir beðnir um að staðfesta að þeir séu sáttir við reglurnar sem gilda í DiscoverEU keppninni; að samþykkja að persónuupplýsingar þeirra verði meðhöndlaðar og vistaðar í þágu DiscoverEU keppninnar og að þeir samþykki að framkvæmdastjórnin hafi samband við sig í tengslum við DiscoverEU, eða að aðrar stofnanir sem viðurkenndar eru af framkvæmdastjórninni, eins og t.d. EACEA, landsskrifstofur Erasmus+ og Eurodesk hafi samband af sama tilefni.
 2. Þátttakendurnir þurfa að gefa til kynna hvort þeir kjósa að ferðast annað hvort eins síns liðs eða í hópi sem ekki má telja fleiri en 5 manns.
 3. Umsækjendur þurfa að hafa yfir virku tölvupóstfangi að ráða til þess að geta sótt um. Þegar þessu er aflokið, þá mun viðkomandi berast tölvupóstur frá Evrópsku ungmennagáttinni, sem er sendur í þeim tilgangi að ganga úr skugga um að virkt netfang hafi verið gefið upp. Sú staðfesting er nauðsynleg vegna þess að öll frekari samskipti við þá umsækjendur sem valdir hafa verið til þátttöku munu fara fram með tölvupóstsendingum. Annar kostur við það að fá staðfestingu frá umsækjendunum á póstfanginu er sá, að þar með getu framkvæmdastjórnin komið í veg fyrir að óprúttnir aðilar noti póstfangið þitt í ótilhlýðilegum tilgangi.
 4. Eftir að staðfestingin á tölvupóstfanginu er afstaðin, þá þurfa ungmennin að hefjast handa við að fylla út umsóknareyðublaðið. Fyrst í stað þurfa þau að greina frá á sínum persónuupplýsingum: þjóðerni, fæðingardegi, skírnarnafni, eftirnafni, kyni, tölvupóstfangi, símanúmeri, lögheimilislandi sínu, héraði, starfi og nafnskírteini (með kt.) eða vegabréfsnúmeri eða skráðu lögheimili. Ungt fólk með skerta hreyfigetu, eða annars konar örorku getur þá komið upplýsingum um sínar sérþarfir á framfæri.
 5. Þegar umsækjendurnir hafa lokið við að skrá þessar persónuupplýsingar, þá verða þeir allir beðnir um að taka þátt í 5 spurninga krossaprófi þar sem einkum er verið að slægjast eftir almennri þekkingu á Evrópusambandinu og þeim ungmennaverkefnum sem sambandið hefur staðið fyrir að undanförnu. Loks verða þeir beðnir um að svara einni aukaspurningu. Umsækjendurnir verða síðan valdir með tilliti til fyrirliggjandi fjárveitinga og svo raðað samkvæmt þeim svörum sem frá þeim bárust í spurningakeppninni.
 6. Þvínæst verða umsækjendurnir spurðir nánar út í ferðaáform sín (t.d. hvenær þeir hyggist leggja af stað, hvort þetta sé í fyrst skipti sem þeir ferðast einir síns liðs án foreldra sinna, hverju þeir vonast eftir að kynnast í þessari ferðaupplifun, hvernig þeir hyggjast fjármagna sinn eigin hluta ferðakostnaðarins og loks hvernig þeir uppgötvuðu DiscoverEU). Athugið að þær upplýsingar sem gefnar verða upp í þessum kafla eru ekki bindandi og koma ekki til með að hafa nein áhrif á hvernig valið á þátttakendum fer fram. Þau gögn sem safnað verður verða eingöngu notuð í tölfræðilegum tilgangi, og sem upplýsingar handa Evrópubandalaginu til þess að unnt sé að betrumbæta DiscoverEU frumkvæðið.
 7. Síðan mun öllum umsækjendum berast tölvupóstur frá Evrópsku ungmennagáttinni, til staðfestingar á móttöku umsóknar þeirra. Í þeim tölvupósti verður staðfest að umsóknin hafi verið skráð auk þess sem þar verður að finna umsóknarkóðann og greint frá þeim tímamörkum þegar úrslit valnefndarinnar eru væntanleg.

Allir sem sent hafa inn umsókn munu fá sendan sinn kóða. Umsækjendurnir þurfa að passa vandlega uppá þennan kóða því hann verður notaður við öll frekari samskipti. Ef einhverjum umsækjanda langar til þess að bjóða öðrum að ganga í sinn hóp, þá verður viðkomandi sjálfkrafa gerður að hópstjóra og þarf þá að tilkynna öðrum meðlimum hópsins hver sinn kóði sé, því þeir þurfa á honum að halda til þess að geta gengið frá sinni eigin skráningu. Með kóðann sem þeir fengu frá hópstjóranum, þá geta hinir meðlimir hópsins skráð sig á netinu og komið þannig sínum eigin persónuupplýsingum á framfæri.

Vinsamlegast athugið að ef um hóp er að ræða, þá þurfa hinir meðlimirnir ekki að taka þátt í spurningakeppninni, því það er eingöngu hlutverk hópstjórans að svara krossaspurningunum og aukaspurningunni. Engu að síður verða þau öll að skrá sínar persónuupplýsingar til þess að umsókn hópsins verði tekin til greina. Meðlimir hópsins verða að uppfylla sömu þátttökuskilyrði og aðrir: vera 18 ára gamlir og með lögheimili sitt skráð í einhverju aðildarríki Evrópusambandsins eða í einhverju þeirra ríkja sem tengjast Erasmus+ áætluninni: Íslandi, Liechtenstein, Norður-Makedóníu, Noregi, Serbíu og Tyrklandi þegar valið á þátttakendum fer fram. Vinsamlegast athugið að þótt viss umsækjandi hafi tekið fram að hann vilji helst ferðast einn, þá er alltaf hægt að bæta við vinum eða kunningjum á umsóknina, allt þangað til að lokafresturinn rennur út, á sama hátt og greint var frá hér á undan.

Litið verður á hópumsókn sem eina einstaka umsókn. Það eru bara þeir meðlimir í hópnum sem hafa lokið við að fylla út og senda inn eyðublaðið, með hjálp kóðans sem þeir fengu frá hópstjóranum, sem koma til greina þegar kemur að úthlutuninni. Meðlimir hóps skulu ekki skrá sig á einstaklingsbundinn hátt.

Ekkert er því til fyrirstöðu að meðlimir hóps geti verið af mismunandi þjóðernum og búið á mismunandi stöðum.

Hver einstaklingur getur aðeins sótt um einu sinni. Aðeins fyrsta umsóknin, sem skráð var inní Evrópsku ungmennagáttina, verður tekin til greina þegar kemur að úthlutuninni. Einstaklingar mega heldur ekki sækja um í mismunandi hópum. Ef sú staða kemur upp að fjölmargar umsóknir uppgötvist, þá verður aðeins sú fyrsta, sem skráð var inní Evrópsku ungmennagáttina, tekin til greina.

Ungt fólk sem hefur þegar ferðast með DiscoverEU í tengslum við eitthvert eldra umsóknarferli á þess ekki kost að sækja um aftur í öðru umsóknarferli. Ef slíkt er reynt, þá mun það komast upp á meðan umsóknarferlið stendur yfir. Ef upp kemst einhvern tímann á því tímabili sem verkefnið stendur yfir, að umsóknir finnast frá ungmenni sem áður hafði fengið úthlutað ferðapassa í einhverju eldra verkefni á vegum DiscoverEU, hvort heldur sem er af verktakanum sem framkvæmdastjórnin útnefndi til þess að annast ferðabókanir, eða af henni sjálfri, þá verður viðkomandi umsækjandi dæmdur úr leik.

4. Umsóknarferlið og valið á þátttakendum

Hverju landi um sig hefur verið úthlutað vissum kvóta af ferðapössum. Úthlutunin byggist á Erasmus+ áætluninni, lykilaðgerð 1, lykillinn að hreyfanleka “ungmenna”.

Valið á þátttakendunum mun taka mið af staðfesta á lögheimilinu sem umsækjandinn gaf upp á umsóknareyðublaðinu. Ef færri umsóknir berast frá vissu landi heldur en fastakvóti þess sagði til um, þá verður þeim ferðapössum sem ganga af úthlutað til umsækjenda sem búsettir eru í þeim löndum þaðan sem umsóknir umfram kvótann bárust.

Ef um hóp er að ræða, þá verður það lögheimili hópstjórans sem tekið verður tillit til við kvótaúteikninginn. Ef svo bregður við að á listanum yfir valda þátttakendur frá vissu landi komi upp hópur og að þar með sé kvóti þess lands uppurinn, þá verður allur hópurinn engu að síður valinn.

Fyrst þarf að ganga úr skugga um hvort viðkomandi umsækjandi sé gjaldgengur, þ.e. með tilliti til fæðingardags og staðfests lögheimilis, eins og tekið er fram í 2. og 3. lið. Vinsamlegast athugið að sú athugun er fyrst gerð vélrænt á meðan á umsóknarferlinu stendur og síðan mun verktakinn, sem framkvæmdastjórn útnefndi til þess að annast ferðabókanirnar, fullvissa sig um að þær séu réttar. Ef verktakinn kemst að því, á meðan hann er að sannreyna hvort nafnskírteini með kt, vegabréf, eða lögheimilisvottorð séu fullgild, að umsækjandinn hafi gefið rangar upplýsingar, þá verður viðkomandi vísað frá þátttöku.

Ef öllum skilyrðum varðandi gjaldgengi er hins vegar fullnægt, þá þurfa umsækjendurnir að tryggja að þeir komi til greina við valið, þ.e. að svara krossaspurningunum 5 og aukaspurningunni. Ef um hóp er að ræða, þá er það eingöngu hlutverk hópstjórans að svara krossaspurningunum og aukaspurningunni.

Umsækjendurnir verða fyrst flokkaðir með tilliti til búsetu, og síðan raðað niður eftir svörunum sem bárust við krossaspurningunum 5 og loks með tilliti til aukaspurningunnar.

Þegar umsóknarfresturinn er útrunninn verður niðurstöðunum safnað saman á Evrópsku ungmennagáttinni og þau síðan send til valnefndarinnar sem svo mun kveða upp lokaúrskurð sinn.

Ef umsóknirnar sem reyndust jafngildar (hvort heldur sem eru frá einstaklingum eða hópum) voru of margar þegar fyrirframákveðna hámarkinu var náð, þá mun framkvæmdastjórnin á endanum grípa til þess úrræðis að beita reglunni “fyrstur kemur fyrstur fær” við úthlutun á síðustu sætunum. Þetta síðastnefnda er bara varnagli, því slík staða hefur enn sem komið er aldrei komið upp við fyrri umsóknarferli.

5. Valnefndin

Valnefnd sem í eiga sæti fulltrúar frá framkvæmdastjórninni og EACEA mun koma saman þegar umsóknarferlinu er lokið. Þeir munu vega og meta árangurinn og bera hann saman við þátttökuskilyrðin sem tíunduð voru hér á undan. Þeir munu svo meta stöðuna og raða umsækjendunum sem koma til með að fá úthlutað ferðapassa með tilliti til svara þeirra í krossaspurningakeppninni og hvernig aukaspurningunni var svarað, auk þess sem kvóti hvers lands verður tekinn með í reikninginn. Þegar aðalvalið er afstaðið, þá verður biðlisti tekinn saman. Hugsanlegt er að umsækjendum á þeim biðlista verði úthlutað ferðapassa ef afgangur verður á því fé sem er til ráðstöfunar á fjárhagsáætluninni eða ef einhverjir umsækjendur ákveða að skila inn sínum ferðapössum (sjá 7. lið).

Eftir að framkvæmdastjórninni og EACEA hafa borist niðurstöður valnefndarinnar, þá munu þær stofnanir kveða upp sinn lokaúrskurð um heildarfjölda þeirra ferðapassa sem úthlutað verður, það fé sem verkefnið fær úthlutað í þessu skyni og leggja svo loks blessun sína yfir valda umsækjendur og biðlistann.

6. Úrslitin tilkynnt

Um leið og búið er að velja úr umsækjendum, þá mun öllum þeim sem sóttu um berast tilkynning um:

 • hvort þeir hafi verið valdir til þátttöku ('valdir umsækjendur')
 • að þeir hafi ekki verið valdir úr en hafi verið settir á biðlista

Eftir að þeim umsækjendum sem valdir voru úr hefur verið tilkynnt um úrslitin, þá verður listi yfir þá sendur til verktakans sem framkvæmdastjórnin og EACEA höfðu kosið til þess að sjá um bókanirnar. Síðan munu nánari samskipti á milli þessa verktaka og hinna útvöldu umsækjenda hefjast. Nánari upplýsingar um þetta má finna í 8. lið.

Einnig er hægt að fylgjast með því á vefsíðu Evrópsku ungmennagáttarinnar hvort maður hefur verið valinn.

7. Biðlistinn

Allir þeir umsækjendur sem ekki voru valdir, verða settir á biðlista þar sem þeim verður raðað í lækkandi forgangsröð með tilliti til þeirra svara sem bárust í spurningakeppninni og hvernig aukaspurningunni var svarað. Fari svo að einhverjir sem valdir hafa veri til þátttöku falli frá umsókn sinni eða ef verðmæti þeirra ferðapassa sem úthlutað hefur verið er lægra en leyfilegt er samkvæmt fyrirliggjandi fjárhagsáætlun, þá er framkvæmdastjórninni og EACEA heimilt að úthluta ferðapössum til þeirra sem settir voru á biðlistann, allt upp að þeim mörkum sem kveðið er á um í fjárhagsáætluninni. Fylgst verður með því mánaðarlega hversu hratt gengur á fjárhagsáætlunina.

Athugið að þótt menn hafi verið settir á biðlistann þá skapar það ekki neinar kvaðir gagnvart framkvæmdastjórninni eða EACEA og tryggir alls ekki að þeir verði valdir á síðari stigum.

Þeir sem ekki voru valdir og settir á biðlistann í staðinn geta átt von á því að verktakinn sem framkvæmdastjórnin hafði valið til þess að sjá um bókanirnar hafi samband við þá og bjóði þeim að skrá sig inn á bókunarsíðu hans. Þeir sem eru á biðlistanum og lenda í því að haft er samband við þá rétt í þann mund sem ferðatímabilið er að renna út, geta ekki krafist endurgreiðslu á þeim ferðakostnaði sem þeir lögðu út fyrir áður en það boð barst þeim, og þeir geta heldur ekki krafist að ferðatímabilið verði framlengt.

8. Bókanir á farseðlum og ferðareglurnar

Áskilið er að þeir umsækjendur sem valdir voru til þátttöku hefji ferð sína í landi sem tilheyrir DiscoverEU (sjá 2. lið – Gjaldgengir umsækjendur) og ferðist til að minnsta kosti eins annars lands sem er líka hluti af DiscoverEU og jafnframt ekki hið sama og brottfararlandið. Ferðapassann er eingöngu hægt að nota í búsetulandinu til þess að ferðast á brott þaðan eða til þess að komast heim aftur. Ungmennin geta skipulagt ferð sína þannig að hún standi yfir á bilinu frá einum degi og upp í heilan mánuð í heildina; Ferðatímabilið skal standa yfir frá 1. júlí 2022 til 30. júní 2023. Á hinni mánaðarlöngu ferð unga fólksins, þá hefur það visst marga daga sem það getur ferðast.

Ferðapassarnir fyrir hina völdu umsækjendur verða bókaðir, keyptir og afhentir af verktakanum sem framkvæmdastjórnin og EACEA höfðu kosið til þess að sjá um þau mál. Hinir völdu umsækjendur eiga ekki undir neinum kringumstæðum bóka passana sjálfir eða með milligöngu ferðaskrifstofu. Hvers kyns passar sem hinir völdu umsækjendur höfðu bókað sjálfir verða ekki endurgreiddir.

Verktakinn, sem framkvæmdastjórnin og EACEA útnefndu mun hafa samband við hina völdu umsækjendur og veita þeim aðgang að vissu snjallsímaappi. Með því appi verður þeim gert auðvelt að leita eftir stuðningi og koma á framfæri sínum hugmyndum varðandi ferðatilhögunina við hina þátttakendurna og undirbúning ferðarinnar. DiscoverEU rafræna afsláttarkortið verður aðgengilegt fyrir alla þátttakendurna á þessu appi.

Með kortinu fæst aðgangur að allskyns afslætti og hagræði hvar sem er í öllum aðildarlöndum Erasmus+ áætlunarinnar. Það verður í höndum verktakans að velja hagstæðustu og samkeppnishæfustu ferðaskipuleggjendurna.

Að öllu jöfnu munu tvenns konar ferðatilhögun standa hinum völdu umsækjendum til boða:

Sveigjanleg ferðatilhögun

Fastákveðin ferðatilhögun

Dagsetningarnar sem hinir völdu umsækjendur kjósa að ferðast verða sveigjanlegar allt þar til ferðapassinn hefur verið virkjaður af umsækjandanum. Hins vegar munu hinir völdu umsækjendur tilkynna verktakanum hvert þeir hyggist ferðast á ákveðnum dögum, og með fyrirfram ákveðnum ákvörðunarstöðum. Í því tilfelli verður hvorki hægt að breyta ferðadögunum né ákvörðunarstöðunum eftir að slíkur fastákveðinn farseðill hefur verið bókaður. Ferðin skal standa yfir á bilinu frá einum degi og upp í heilan mánuð.
Þeir umsækjendur sem valdir hafa verið geta verið á ferðalagi í einn mánuð að hámarki,þar sem fjöldi ferðadaganna er fastákveðinn. Sveigjanlegi ferðamátinn gefur hinum völdu umsækjendum kost á að ferðast til allra þeirra gjaldgengu landa sem þeir kæra sig um að heimsækja. Þeir umsækjendur sem valdir hafa verið geta ferðast til allt að 2 landa sem eru hluti af Evrópusambandinu, eða til landa sem tengd eru Erasmus+ áætluninni (sjá 2. lið) á þeim tímapunkti þegar val þáttakendanna fer fram (til þeirra teljast þó ekki brottfararlandið eða lönd sem farið er um) og má ferðin standa yfir í allt að einn mánuð að hámarki.

Um leið og búð er að virkja ferðapassann geta hinir völdu umsækjendur lagt af stað og ferðast á samfelldum dögum, eða þeir geta kosið að deila sínum ferðadögum hvar sem er á heilan mánuð. Þeir geta ferðast með hvaða járnbrautarlestum sem er í eigu evrópskra lestarfélaga og þar að auki tekið sér far með vissum ferjum eða hverjum þeim öðrum ferðamáta sem ákveðinn verður af verktakanum sem framkvæmdastjórnin og EACEA kusu til þess að sjá um þau mál. Vinsamlegast athugið að sum lestarfélög taka frá viss sæti eða krefjast þess að sæti um borð séu bókuð. Slíkar sætabókanir eru ekki innifaldar í Sveigjanlega ferðapassanum. Athugið að kostnaðurinn við slíkar sætabókanir, eða annars konar útgjöld sem komið upp í ferðinni, fást ekki endurgreidd hjá framkvæmdastjórninni eða EACEA

Hins vegar er allur bókunarkostnaður innifalinn í föstu ferðaáætluninni, en samt gildir þar visst þak á útgjöldin, að upphæð 251 evrur, sem þarf að virða. Umsækjendurnir sem valdir hafa verið verða sjálfir að ganga úr skugga um að ferðaáætlun þeirra sé raunhæf.

Í báðum tilfellum:

 • Nauðsynlegt er að virða 251 evru útgjaldaþakið, nema í þeim undantekningatilfellum sem talin verða upp hér á eftir.

Kostnaður við afbókanir er ekki innifalinn. Engar sporslur eða aukaútgjöld sem fólk verður fyrir í ferðinni fást endurgreidd hjá framkvæmdastjórninni eða EACEA. Þeir völdu umsækjendur sem hyggjast ferðast til Kýpur, Íslands, Írlands eða Möltu þurfa að láta verktakann vita af þeim áformum eftir að hafa hringt út sérstaklega til allra hinna völdu og bókuðu þátttakenda. Kvótanum sem minnst er á í 1. Viðauka 1 verður beitt í tengslum við þá sem ferðast frá Kýpur, Íslandi, Írlandi og Möltu. Þessum kvóta verður beitt þrisvar sinnum vegna allra þeirra völdu umsækjenda sem ætla sér að ferðast til Kýpur, Íslands, Írlands og Möltu, og þá verða flugmiðarnir til þessara tilteknu ákvörðunarstaða bókaðir á grundvelli “fyrstur kemur fyrstur fær”.

Undantekningar frá kröfunum um ferðatíma verða gerðar vegna þeirra ungmenna sem þurfa að gegna skyldubundinni samfélagsþjónustu eða herskyldu í einhverju aðildarríki Evrópusambandsins eða landi sem tengist Erasmus+ áætluninni (sjá 2. lið). Í slíkum tilfellum verður ferðatíminn framlengdur í allt að 6 mánuði frá því þeim lögbundnu skylduverkum lauk.

9. Farartæki

Að öllu jöfnu munu þeir umsækjendur sem valdir voru ferðast með járnbrautarlestum. Engu að síður, og til þess að tryggja að sem allra flestir geti tekið þátt, þá gerir DiscoverEU ráð fyrir því að grípa þurfi til annarra flutningsmáta, eins og til dæmis ferja og hópferðabíla þegar þörf krefur, auk þess sem umhverfissjónarmið, tímamismunur og vegalengdir eru einnig tekin með í reikninginn Ferðast verður á öðru farrými Það verður eingöngu í algerum undantekningatilfellum sem ferðir með flugvélum verða heimilaðar. Slíkt mun eingöngu ná til þeirra ungmenna sem búsett eru:

 1. Á níu fjarlægustu svæðunum (þ.e. Gvadelúpeyjum, Frönsku Gvæjana, Martiník, Réunion, Mayotte, Sankti-Martin, Madeira, Asoreyjum, og Kanaríeyjum);
 2. Ríkjum og yfirráðasvæðum ESB handan hafsins ( Arúba, Bonaire, Curaçao, Frönsku Pólýnesíu, Grænlandi, Nýja Kaldedónía, Saba, Sankti Bartólómeusareyjum, Sankti Estatíusey, Sankti Martin, Sankti Pierre og Miquelon, Wallis- og Fútúnaeyjum)
 3. Í þeim löndum eða á þeim svæðum sem ekki eru aðgengileg með ofangreindum ferðamáta (járnbrautarkerfum, ferjum eða hópferðabílum)
 4. Eða þegar ungmenni þurfa að ferðast í meira en 18 klukkustundir, hvort heldur sem er á landi eða sjó, áður en þau komast að landamærum síns eigin heimalands.

Það er eingöngu flug þeirra að heiman og heim aftur sem kemur til greina. Hvað allar aðrar ferðir áhrærir, þá er ætlast til þess, samkvæmt aðalreglu verkefnisins, að þátttakendurnir ferðist með lestum eða álíka flutningsmáta.

Þau ungmenni sem búa á ystu landssvæðum Evrópusambandsins geta valið sér hvern þann áfangastað sem uppfyllir ofangreindar kröfur. Sömuleiðis geta þeir völdu umsækjendur sem langar til að ferðast til ystu svæða eða landa og yfirráðasvæða handan hafsins (YHH) gert það ef ferðakostnaðurinn fellur innan 251 evru markanna.

Þeir völdu umsækjendur sem búsettir eru annaðhvort á Kýpur, Íslandi, Írlandi eða Möltu geta ferðast flugleiðis til meginlands Evrópu.

10. Hámarksútgjöld vegna flugfarseðla

Hinir völdu umsækjendur munu eingöngu fá ferðapassa til þeirra ákvörðunarstaða sem þeir kusu sér og svo DiscoverEU afsláttarkortið. Gisting, fæði, tryggingar, aukaleg ferðaútgjöld eða hvers kyns aðrar sporslur í tengslum við ferðina þurfa hinir völdu umsækjendur að standa straum af sjálfir.

Grundvallarreglan er sú að sérhver valinn þátttakandi á eingöngu rétt á hámarksútgjöldum vegna síns ferðapassa sem nema 251 evrum. Aðeins verður ferðast á öðru- eða almennu farrými. Engu að síður geta þau útgjöld orðið hærri í þeim sérstöku tilfellum sem talin verða upp hér á eftir:

 • Vegna ferðalaga þeirra ungmenna sem búa á ystu svæðum ESB eða yfirráðasvæðum handan hafsins til meginlands Evrópu. En um leið og þau eru komin til meginlands Evrópu, þá tekur grundvallarreglan aftur gildi;
 • Fyrir vissa valda umsækjendur sem búa annars staðar en á ofangreindum landssvæðum, og eiga þess ekki annan kost heldur en að ferðast flugleiðis til meginlands Evrópu. En um leið og þau eru komin til meginlands Evrópu, þá tekur grundvallarreglan aftur gildi;
 • Í vissum tilfellum sem athuguð verða hvert fyrir sig (t.d. vegna valdra umsækjenda sem búa á öðrum eyjum þeirra landa sem tengjast Erasmus+ áætluninni) þá gæti þurft að leggja út fyrir aukaferð með lest, flugi eða rútu.

Hugsanlega þarf að leggja út fyrir útgjöldum vegna valdra umsækjenda sem búa við skerta hreyfigetu eða sérþarfir: kostnaðurinn við sérstaka aðstoð (fylgdarmanneskju, leiðsöguhund fyrir sjónskerta valda umsækjendur, o.s. frv.), en þá þarf að leggja fram skrifleg gögn því til staðfestingar, á sama hátt og krafist er í lögum heimalands viðkomandi aðila.

11. Tímaáætlun til viðmiðunar

Opnunardagur skráninga Fimmtudagurinn 7. apríl klukkan 12:00 á hádegi (að miðevróputíma, CEST)
Lokadagur skráninga Fimmtudagurinn 21. apríl klukkan 12:00 á hádegi (að miðevróputíma, CEST)
Valnefndin maí 2022
Tilkynnt um val þátttakenda Frá og með miðjum maí 2022
Fyrsti brottfarardagur Föstudagurinn 1. júlí 2022
Síðasti heimkomudagur 30. júní 2023

12. Afturköllun eða niðurfelling ferðar valins þátttakanda

Sérhver ferðapassi verður skráður á nafn og ekki er hægt undir neinum kringumstæðum að framselja hann til annars einstaklings. Ekki er hægt að breyta nafninu sem stendur á ferðapassanum.

Ef valinn þátttakandi hættir við, af hvaða orsökum sem það kann að vera, áður en verktakinn sem útnefndur var af framkvæmdastjórninni bókar ferðapassann hans, þá verður sæti hans úthlutað til annars aðila af biðlistanum, í lækkandi forgangsröð með tilliti til valsins. Þeir umsækjendur sem valdir hafa verið eru hvattir til þess að upplýsa verktakann um sína afstöðu áður en nokkuð er bókað.

Þrátt fyrir að einhver meðlimur hópsins (hvort heldur sem er hópstjórinn eða annar meðlimur) hætti við áður en verktaki framkvæmdastjórnarinnar hefur bókað ferðapassann, þá mun sú uppákoma ekki stefna ferð hinna meðlimanna í voða. Hinir meðlimir hópsins geta þrátt fyrir það haldið ferð sinni áfram eins og ekkert hafi í skorist. Hins vegar er ekki hægt að útnefna annan aðila til þess að hlaupa í skarðið fyrir þann sem hætti við. Þeim ferðapassa sem þannig losnaði verður þá úthlutað til einhvers af biðlistanum, í lækkandi forgangsröð með tilliti til valsins.

Viðbúið er að sumir meðlimir hópsins kjósi þegar á líður að halda ferð sinni áfram upp á eigin spýtur, en það mun ekki hafa nein áhrif ferðir hinna meðlima hópsins.

Óheimilt er að skiptast á ferðapössum og þeir fást ekki endurgreiddir. Sveigjanlegi ferðapassinn býður uppá frjálst val á brottfarardegi, þannig að ferðalangarnir geta skipt um skoðun í þeim efnum hvenær sem er áður en skráður upphafsdagur ferðarinnar rennur upp.

Hvað föstu ferðaáætlunina varðar, þá eru allar afbókanir eða breytingar háðar skilmálum og ákvæðum flutningsaðilans og hvers kyns kostnað þar að lútandi þarf umsækjandinn að bera sjálfur.

13. Óviðráðanleg atvik

Ef ferðin teppist af einhverjum óvenjulegum og óviðráðanlegum orsökum, eða atburðum sem þátttakendurnir geta ekki haft nein áhrif á, og er heldur ekki hægt að rekja til mistaka eða gáleysis af þeirra hálfu, þá er hægt að gefa út nýjan ferðapassa. Verktaki framkvæmdastjórnarinnar og EACEA mun vega og meta sérhvert slíkt tilvik út af fyrir sig.

14. Ferðasagan rakin

Framkvæmdastjórnin vill endilega heyra frá því unga fólki sem lagði af stað í ferðalag á vegum DiscoverEU og hvetur þau til þess að deila upplifun sinni og ævintýrum með öðrum. Þess vegna eru allir þeir sem valdir eru til þátttöku í verkefninu gerðir að svokölluðum DiscoverEU sendiherrum. Þeir eru hvattir til þess að deila ferðasögu sinni sem víðast á samfélagsmiðlum, eins og til dæmis Instagram, Facebook og Twitter, eða bjóðast til þess að halda kynningu í skólanum sínum eða næstu félagsmiðstöð. Snjallsímaappið gerir mönnum kleift að búa til sitt eigið kort yfir ferðaleiðirnar og bæta svo inná það ýmis konar tölfræði (t.d. fjölda þeirra lesta sem ferðast var með, hversu mörg lönd voru heimsótt eða hvernig ferðin var kolefnisjöfnuð). Svo má deila því öllu saman með öðrum á samfélagsmiðlunum í lok ferðarinnar.  

Auk þess er þátttakendunum velkomið að ganga í opinbera #DiscoverEU Facebook hópinn. Síðan verða ungu ferðalangarnir einnig beðnir um að taka þátt í könnun á netinu sem verktaki framkvæmdastjórnarinnar stendur fyrir, þar sem þeir verða beðnir um að segja frá reynslu sinni að ferð lokinni. Þegar því er lokið, þá mun ferðalöngunum berast vottorð um þátttöku sína, unnið verður sjálfvirkt úr gögnum ferðarinnar, þar sem sérstök áhersla verður lögð á að lýsa þeirri hæfni og færni sem þeir öfluðu sér á ferðalaginu.

15. Vegabréfsáritanir

Allt eftir því hvert ríkisfang þitt er og áformaðar ferðaleiðir, þá má búast við því að þú þurfir að afla þér einnar eða fleiri vegabréfsáritana. Það er ætíð í verkahring viðkomandi ríkis að gefa út slíkar vegabréfsáritanir. Við getum ekki annað en ráðlagt þátttakendunum að afla sér sjálfir upplýsinga þar að lútandi, og senda sínar umsóknir inn tímanlega. Öflun vegabréfsáritana getur nefnilega tekið margar vikur. DiscoverEU ferðaappið og þjónustuborðið bjóða uppá aðstoð sína í þessum efnum. Sem breytir því þó ekki, að það eru sjálfir þátttakendurnir sem bera ábyrgð á því að hafa gögn sín í lagi áður en ferðin hefst.

Framkvæmdastjórnin, EACEA og verktaki þeirra eru ekki í neinni aðstöðu til þess að hafa áhrif á innlend stjórnvöld í slíkum vegabréfsáritanamálum.

DiscoverEU mun greiða þann kostnað sem hlýst af útgáfu vegabréfsáritananna.  

Í þeim tilfellum þar sem þess er krafist að sjúkratryggingar séu fyrir hendi til þess að vegabréfsáritun fáist gefin út, þá mun verktakinn annast það. DiscoverEU mun taka að sér að greiða þann kostnað sem af því hlýst.

16. Tryggingar

Hinum völdu umsækjendum er ráðlagt að afla sér viðeigandi sjúkra- og ferðatrygginga, sem nái yfir allt ferðatímabilið. Venjulega eru þátttakendurnir aðilar að sjúkratryggingum síns eigin heimalands, sem jafnframt tryggir þá á meðan á ferðalaginu stendur fyrir milligöngu Evrópska sjúkratryggingakortsins. 

Hins vegar ná skilmálar Evrópska sjúkratryggingakortsins eða einkarekinnar heilsutrygginga ekki til allra hugsanlegra tilfella, einkum og sér í lagi heimflutnings eða ef þörf er á aðkomu sérfræðilækna. Í slíkum tilfellum er ráðlegt að afla sér viðbótartrygginga.

17. Fyrirvarar

Framkvæmdastjórnin, Evrópsk menntun og EACEA munu eingöngu sjá um að útvega ferðapassana, afsláttarkortin og, eftir því sem við á, greiða kostnaðinn við öflun vegabréfsáritana, eins og útskýrt var hér á undan. Af því leiðir að gisting, fæði, helstu tryggingar, sporslur og önnur tilfallandi útgjöld á meðan á ferðinni stendur, munu þátttakendurnir þurfa að standa straum af sjálfir.

Framkvæmdastjórnin, EACEA eða verktaki þeirra munu ekki sæta ábyrgð vegna neins konar skaða sem umsækjendur kunna að valda eða verða fyrir í keppninni, þar með talið skaði sem þriðji aðili kann að valda eða verða fyrir og orsakaðist af eða átti sér stað á meðan á hinni niðurgreiddu starfsemi stóð.

Framkvæmdastjórnin, EACEA eða verktaki þeirra munu ekki sæta ábyrgð á hverskyns efnislegu tjóni, óefnislegu eða líkamlegu tjóni sem hinir völdu þátttakendur eða ferðafélagar urðu fyrir á meðan á ferðalagi þeirra, eða dvöl á staðnum stóð.

Ferðalagið sem til stendur að fara í er háð þeim takmörkunum sem tengjast fjárhagsáætluninni, tímamörkum og fjölda þeirra passa sem til taks eru. Þess vegna er allt slíkt breytingum háð og utanaðkomandi verktakinn, sem framkvæmdastjórninni og EACEA kusu til starfans, getur ekki undir neinum aðstæðum ábyrgst að hin fyrirhugaða ferð geti farið fram eins og áætlað var.

Hinum völdu umsækjendum er ráðlagt að afla sér viðeigandi sjúkra- og ferðatrygginga, sem nái yfir allt ferðatímabilið. Venjulega eru þátttakendurnir aðilar að sjúkratryggingum síns eigin heimalands, sem jafnframt tryggir þá á meðan á ferðalaginu stendur fyrir milligöngu Evrópska sjúkratryggingakortsins. Hins vegar ná skilmálar Evrópska sjúkratryggingakortsins eða einkarekinnar heilsutrygginga ekki til allra hugsanlegra tilfella, einkum og sér í lagi heimflutnings eða ef þörf er á aðkomu sérfræðilækna. Í slíkum tilfellum er ráðlegt að afla sér viðbótartrygginga. Framkvæmdastjórnin og EACEA áskilja sér rétt til þess í undantekningatilfellum að breyta þeim skilmálum sem fram koma í 10. og 11. lið.

18. Varnarþing

Keppni þessi stjórnast af löggjöf ESB. Dómstóll Evrópusambandsins skal vera varnarþing hvers kyns mála sem upp kunna að koma á milli Sambandsins og styrkþega hvað varðar túlkun, beitingu eða gildi þeirra reglna sem lúta að þessari keppni, ef ógerningur reynist að leysa úr ágreiningnum á vinsamlegum nótum.

19. Gagnavernd

Þau gögn sem farið er fram á verða eingöngu notuð til þess að velja úr umsækjendunum, til þess að bóka farseðla þeirra og veita þeim aðra þá þjónustu sem tengist DiscoverEU, á borð við DiscoverEU námsferlið eða kynningarátak DiscoverEU. Þá getur þátttakandinn átt von á því að framkvæmdastjórnin hafi samband við sig í tengslum við DiscoverEU, eða að aðrar stofnanir sem viðurkenndar eru af henni, eins og t.d. EACEA, landsskrifstofur Erasmus+ og Eurodesk hafi samband af sama tilefni

Öll meðferð framkvæmdastjórnarinnar og EACEA á persónuupplýsingum verður í samræmi reglugerð (ESB) 2018/1725 Evrópuþingsins og ráðsins frá 23. október 2018 (um niðurfellingu reglugerðar (EB) nr. 45/2001) og í samræmi við ‘tilkynningar um hvernig gagnavinnslu skuli háttað’ til gagnameðferðarfulltrúa (DPO) framkvæmdastjórnarinnar (aðgengilegt almenningi á DPO-skráningastofunni). Hvers kyns gögn í tengslum við keppnina verða meðhöndluð af "gagnaeftirliti" framkvæmdastjórnarinnar og EACEA, útfærslu hennar og eftirvinnslu eða til verndar fjárhagslegum hagsmunum ESB.

Í persónuverndaryfirlýsingu DiscoverEU er umsækjendunum greint frá því hvernig persónuupplýsingar eru nýttar í tengslum við verkefnið og hvernig þau persónulegu gögn eru vernduð. Persónuverndaryfirlýsingu DiscoverEU má finna á eftirfarandi tengli: https://europa.eu/youth/privacy_en.

Umsækjendur eiga rétt á að vísa ágreiningsmálum sínum til Evrópska eftirlitsmannsins með gagnavinnslu hvenær sem er.

20. Kvartanir

Kvörtunareyðublaði verður komið fyrir á vefsíðu verktakans sem framkvæmdastjórnin og EACEA hafa kosið til þess að sjá um ferðabókanirnar. Þeir umsækjendur sem valdir hafa verið verða látnir vita af þeim möguleika um leið og passar þeirra verða bókaðir.