Frequently Asked Questions

Europass templates

Hvað er Europass-færnivegabréfið?

Europass-færnivegabréfið var verkfæri sem bauðst á Europass fram til ársloka 2019. Með því var hægt að búa um safn skjala í einni einstakri skrá. Europass-færnivegabréfið er ekki lengur í boði en aftur á móti geta skráðir Europass-notendur deilt skjölum úr Europass-skjalasafninu sínu.

Hvernig lýsi ég stafrænni færni minni?

Í Europass-prófílnum geturðu tekið saman og flokkað stafræna færni sem þú hefur tileinkað þér. Þú getur búið til lista yfir alla stafræna færni þína, þ.m.t. verkfæri og hugbúnað sem þú kannt að nota og einnig verkefni eða árangur sem þú ert stolt(ur) af. Þú getur lýst verkfærunum sem þú notar í vinnunni eða við námið, og sömuleiðis tólum sem þú notar í frístundum (t.d. samfélagsmiðlar, blogg, leikir). Þú getur skipt færni upp í ólíka flokka, t.d. búið til flokk með stafrænum tólum sem þú notar við hönnun eða fyrir stafræna færni sem þú notar í starfi þínu eða jafnvel gert lista yfir stafræna færni sem þig langar til að tileinka þér.

Hvernig metur maður tungumálafærni sína?

Þú getur metið tungumálafærni þína í Europass-prófílnum. Sjálfsmat á færni merkir að þú ígrundar færni þína og gefur lýsingu á því hve langt kunnáttan nær. Þú fyllir út einfalda sjálfsmatstöflu í Europass-prófílnum til að lýsa tungumálafærni þinni. Þú skoðar hverja lýsingu í sjálfsmatsverkfærinu og velur stigið sem þér finnst best lýsa færni þinni að því er varðar hlustun, lestur, töluð samskipti, framsetningu í töluðu og skrifuðu máli, á hvaða tungumáli sem er. Þú geymir tungumálaskírteinin líka í Europass-skjalasafninu. Sjálfsmatstólið byggir á samevrópska tungumálarammanum.

Þú getur deilt sjálfsmatstöflunni úr Europass-prófílnum með öðrum, s.s. vinnuveitendum og mennta- eða starfsmenntastofnunum.

Hvað varð um Europass-tungumálavegabréfið?

Europass-tungumálavegabréfið var eitt af Europass-skjalasniðmátunum frá árinu 2004. Það var sjálfsmatsverkfæri til að meta tungumálafærni og -hæfni.

Í núverandi Europass hefur tungumálavegabréfið verið samþætt Europass-prófílnum. Það er sá hluti sem nefnist tungumálafærni. Þú getur ennþá metið tungumálafærni þína út frá samevrópska tungumálarammanum og deilt niðurstöðunum með vinnuveitendum eða menntastofnunum eftir þörfum.

Hvað er Viðauki með prófskírteini?

Viðauki með prófskírteini getur hjálpað þér að lýsa háskólamenntun þinni með skýrum og samræmdum hætti.

Hvað er Mat og viðurkenning á starfsmenntun?

Mat og viðurkenning á starfsmenntun getur hjálpað þér að lýsa starfsmenntun þinni með skýrum og samræmdum hætti.

Hvað er Europass-starfsmenntavegabréf?

Europass-starfsmenntavegabréfið getur hjálpað þér að sýna fram á færni sem þú aflaðir þér í starfs- eða námsdvöl erlendis.

Europass CV and cover letter editor

Nýja Europass-kerfinu var hleypt af stokkunum í júlí 2020. Get ég haldið áfram að nota Europass-ferilskrár og fylgibréf frá því fyrir þennan tíma?

Ef þú bjóst til Europass-ferilskrá eða fylgibréf fyrir júlí 2020 geturðu flutt þessi skjöl inn í netritilinn til að gera breytingar á þeim. Og ef þú skráir þig geturðu búið til Europass-prófíl og geymt skjöl í Europass-skjalasafninu þínu, og þannig gengið að og deilt skjölunum þínum frá einum stað.

Hvernig vistar maður Europass-ferilskrána?

Þegar ferilskráargerðinni er lokið færðu tilkynningu um valkostina sem bjóðast:

Sem skráður notandi geturðu hlaðið henni niður í staðbundið tæki eða geymt hana í Europass-skjalasafninu þínu.

Sem gestanotandi geturðu hlaðið henni niður í staðbundið tæki.

Getur Europass þýtt Europass-ferilskrána og fylgibréfið?

Þú getur búið til Europass-prófíl, Europass-ferilskrá og fylgibréf á 29 tungumálum. Aftur á móti þýðir Europass ekki upplýsingar sem þú hefur þegar fært inn í prófílinn eða skjöl.

Get ég búið til mismunandi útgáfur af Europass-ferilskránni?

Þú getur búið til mismunandi útgáfur af Europass-ferilskránni. Þú getur líka nýtt þér hin ólíku útlitssniðmát sem í boði eru. Skráðir notendur geta geymt mismunandi útgáfur í Europass-skjalasafninu sínu. Gestanotendur geta hlaðið niður mismunandi útgáfum af Europass-ferilskránni og fært þær upp við síðari tækifæri.

Ég hef týnt Europass-ferilskránni minni. Hvað er til ráða?

Ef þú ert gestanotandi eru upplýsingarnar sem þú færir inn í Europass-prófílinn tiltækar í 48 klst. frá síðasta innliti.

Ef þú ert skráður notandi eru upplýsingarnar þínar vistaðar lengur og þú getur vistað Europass-ferilskrár og -fylgibréf í skjalasafninu þínu.

Get ég sniðið Europass-ferilskrána að mínum þörfum?

Með Europass-ferilskráarritlinum geturðu bætt við, fjarlægt og breytt hlutum ferilskrárinnar að vild. Suma hluta hennar, s.s. „Starfsreynsla“ og „Menntun og þjálfun“ má færa til, breyta eða fjarlægja. Þú getur líka búið til sérstaka hluta með heitum sem þú velur, í samræmi við þínar þarfir og reynslu.

Þegar þú hefur lokið við að fylla út þá hluta sem þú vilt nota geturðu valið hentugt skráarútlit úr lista með ólíkum sniðmátum. Þannig má aðlaga útlit og yfirbragð hverrar ferilskráar að einstökum umsóknum.

Hvernig get ég uppfært Europass-ferilskrána mína á netinu?

Ef þú ert skráður notandi geturðu geymt Europass-ferilskrána í Europass-skjalasafninu þínu og gert breytingar á henni hvenær sem er. Ef þú ert gestanotandi geturðu flutt Europass-ferilskrána þína inn í netritilinn, gert allar nauðsynlegar breytingar og hlaðið ferilskránni síðan aftur niður.

Hvar get ég vistað Europass-ferilskrána mína?

Þú getur vistað Europass-ferilskrána á eftirfarandi máta:

  • Í Europass-skjalasafninu þínu (aðeins fyrir skráða notendur)
  • Hlaðið henni niður í staðbundið tæki (borðtölvu eða farandtæki)
Á hvaða skráarsniði get ég vistað Europass-ferilskrána mína?

Eins og er geturðu vistað Europass-ferilskrána sem Europass-PDF.

Ég get ekki bætt mynd í Europass-ferilskrána mína.

Athugaðu hvort þú hafir hlaðið myndinni upp á réttu skráarsniði: PNG, JPG.

Ef svo er skaltu ganga úr skugga um að skráarstærðin sé undir 20 MB.

Support and Information

Ég er ekki evrópskur ríkisborgari. Get ég notað Europass?

Já, Europass er ókeypis safn netlægra verkfæra og upplýsinga sem öllum er frjálst að nota, óháð ríkisfangi eða búsetulandi.

Getur Europass hjálpað mér við að fá færni mína og menntun og hæfi viðurkennd?

Europass getur hjálpað þér að koma færni þinni, menntun, hæfi og reynslu á framfæri á skýran og samkvæman hátt. Að nota Europass skapar engan sjálfkrafa rétt á viðurkenningu á færni, menntun og hæfi, né heldur önnur réttindi. Europass-prófíllinn og Europass-skjöl, s.s. Viðauki með prófskírteini, Mat og viðurkenning á starfsmenntun og Europass-starfsmenntavegabréfið geta komið að gagni við að útskýra færni þína, menntun og hæfi fyrir vinnuveitendum, mennta- og starfsmenntastofnunum og öðrum aðilum.

Get ég notað eða afritað upplýsingarnar á Europass-vefsetrinu?

Þér er heimilt að nota upplýsingarnar á Europass-vefsetrinu ef þú getur um heimildina (© Evrópusambandið).

Ég er blind(ur) eða sjónskert(ur). Get ég notað Europass-ferilskrána?

Já, þegar Europass-verkfærin voru þróuð var sérstaklega gætt að þörfum sjónskertra og blindra. Europass styður hjálpartækni og veitir fólki með slíkar þarfir aðra aðferðarmöguleika.

Hvað eru landsmiðstöðvar fyrir Europass?

Í þeim löndum sem taka þátt í Europass samræmir landsmiðstöð fyrir Europass alla starfsemi í tengslum við Europass. Það er fyrsti tengiliður fyrir einstaklinga eða stofnanir sem hafa hug á að nota eða læra meira um Europass. Þú getur haft samband við landsmiðstöð fyrir Europass í þínu landi eða landinu þar sem þú hefur hug á að vinna eða læra.

Hvernig fæ ég aðstoð í mínu landi?

Upplýsingar um þjónustu og aðstoð í hinum ýmsu löndum má nálgast á Europass-síðunum Nám í Evrópu og Vinna í Evrópu. Veldu af listanum landið sem þú hefur í huga.;

Frekari upplýsingar um Europass fást með því að hafa samband við landsmiðstöð fyrir Europass í þínu landi.

Hvernig kemst ég að því hvernig menntun mín flokkast samkvæmt Evrópska viðmiðarammanum um menntun og hæfi (EQF-þrepið)?

Upplýsingar um EQF-þrepið gætu verið til staðar í skjölum þínum um menntun og hæfi (prófvottorði, skírteini, afritum) eða þú getur beðið stofnunina þar sem þú stundaðir nám um þessar upplýsingar.

Hvað er evrópski viðmiðaramminn um menntun og hæfi (EQF-ramminn)?

Evrópski viðmiðaramminn um menntun og hæfi (European Qualification Framework, EQF-ramminn) er ESB-verkfæri sem auðveldar fólki að átta sig á menntun og hæfi þvert á landamæri og menntakerfi. EQF-ramminn gerir kleift að skilja menntun og hæfi, hvar svo sem hennar var aflað í Evrópu, út frá á einföldu, átta þrepa kerfi. Prófvottorðin þín, Viðauki með prófskírteini eða Mat og viðurkenning á starfsmenntun geta innihaldið upplýsingar um EQF. Þú getur látið upplýsingar um flokkun menntunar þinnar skv. EQF fylgja með í ferilskránni og umsóknum svo að vinnuveitendur eða menntastofnanir í öðrum löndum eigi auðveldara með að átta sig á menntun þinni og hæfi.