Evrópska ungmennagáttin

Upplýsingar og tækifæri fyrir ungt fólk vítt og breitt í Evrópu.

A picture
© shutterstock.com - iko

Vertu hraustur – vertu þú sjálfur: EB og heilsufar ungmenna

Takmarkið sem EB hefur sett sér um heilsufar ungmenna er að styðja við bakið á ríkisstjórn þíns lands, frjálsum félagasamtökum og öðrum þátttakendum til þess að bæta þína eigin heilsu og vina þinna. En nú er einnig komið að þér að gerast þátttakandi með því að taka ábyrgðarfullar ákvarðanir um eigin lífsmynstur.

Sú athygli sem EB beinir að heilsufari ungs fólks er mikilvægur þáttur í heilsuáætlun EB. Hví ekki að láta til sín taka? Mikilvægasti aðilinn í því að bæta heilsu þína er jú þú sjálfur!

 

Frumkvæði EB um heilsufar ungmenna

Árið 2008 tók ráð Evrópusambandsins til samþykktar ályktun um heilsu og vellíðan ungs fólks sem beindi sjónum manna að mikilvægi þess að efla heilsufar og vellíðan meðal ungs fólks í Evrópu.

 

Árið 2009 hleypti framkvæmdastjórn Evrópusambandsins af stokkunum ungmennaheilsuátaki með það að meginmarkmiði að fá ungt fólk til þess að gerast þátttakendur í ákvarðanatökuferlinu um sína eigin heilsu og að ná fram skuldbindingum af hendi hagsmunaaðila til þess að bæta heilsufar ungs fólks. Ráðstefnan Vertu hraustur – vertu þú sjálfur, sem skipulögð var af umræðuvettvangi evrópskrar æsku samdi drög um heilsufarsáætlun ungmenna þar sem lagt var á ráðin um að bæta heilsufar ungs fólks.

 

Aðgerðir EB er varða heilsufar ungmenna

Framkvæmdastjórnin er með ýmsar aðgerðir í heilsufarsmálum ungs fólks, en í grófum dráttum má segja að menn geti hagnýtt sér þrjár þeirra:

Evrópska heilsugáttin – ungt fólk er með upplýsingar um heilsutengd málefni og aðgerðir jafnt innan sem utan Evrópu og lýðheilsuáætlanir EB.

Heilsutryggingakort EB hjálpar þér til þess að forðast tímasóun, umstang og útgjöld ef þú verður veikur eða slasast meðan þú ert á ferðalagi erlendis.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin/Evrópa – heilsuvakt barna og unglinga leggur stund á að vara ungt fólk við hættunni af áfengisnotkun, neyslu ólöglegra fíkniefna og tóbaksnotkun, háskalegu kynlífi, ofbeldi og áverkum.

 

Nálgun EB á heilsufarsmál ungmenna

Fjölmörg af þeim heilsufarsvandamálum sem ungt fólk mun lenda í síðar á lífsleiðinni þegar það er orðið fullorðið, eins og til dæmis hjarta- og æðasjúkdómar, sykursýki, hjartaslag, krabbamein og geðrænar truflanir, byrja strax í æsku og á unglingsárunum. Því er það svo, hvað ungt fólk áhrærir, að líta ber á heilsu þess í sem allra víðustu samhengi, í samræmi við þá skilgreiningu sem WHO hefur gert á heilsunni: „Heilsa er ekki aðeins það að sjúkdómar séu ekki til staðar, heldur ástand sem einkennist af fullkominni líkamlegri, andlegri og félagslegri vellíðan”.

Það hugtak sem EB notar um heilsu ungs fólks nær einnig til líkamlegra afkasta, andlegs ástands, félagslegra tengsla og virkni í umhverfinu (til dæmis, möguleikanna á að afla sér nýrrar þekkingar og færni, möguleikanna á afþreyingu, hins áþreifanlega umhverfis).