Evrópska ungmennagáttin

Upplýsingar og tækifæri fyrir ungt fólk vítt og breitt í Evrópu.

Ísland og hernaður Landhelgisgæslan víkingasveitin
(c) Landhelgisgæslan

Ísland og hernaður

Ísland er herlaust land og stendur ekki í neinum hernaði gegn öðrum löndum. Hér á landi eru þó nokkrar stofnanir sem vert er að þekkja.

 

 

Oft er sagt að Ísland sé herlaust land. Þó það sé að mestu leyti rétt er hægt að færa rök fyrir því að Ísland sé ekki alveg 100% herlaust. Ísland fer aldrei með hernað á hendur neins ríkis og á Íslandi er enginn standandi her og ekkert varnamálaráðuneyti, en hér eru þó...
 

Landhelgisgæslan

Landhelgisgæslan er sú stofnun sem kemst næst því að vera her. Hún sér um að vakta og verja landhelgi Íslands, fiskveiðilögsöguna og lofthelgina. Hún sér um leit og björgunarstörf þegar slys verða á sjó, sprengjueyðingar, ratarstöðvar o.fl. Ennfremur sér hún um að mæla og kortleggja hafsvæðin í kringum Ísland. Landhelgisgæslan á þrjú vopnuð varðskip, Þór, Ægir og Týr, og sjómælingabátinn Baldur. Að auki hefur hún yfir að ráða eftirlitsflugvélinni Sif og þremur björgunarþyrlum, Líf, Gná og Syn. Landhelgisgæslan tekur þátt í evrópsku samstarfi um varnir hins svokallaða Schengen-svæðis, og sinnir því stundum gæslu víðsvegar á hafi umhverfis Evrópu. Hjá Landhelgisgæslunni starfa um 200 manns. Landhelgisgæslan gegndi veigamiklu hlutverki í Þroskastríðunum.
 

Víkingasveitin

Sérsveit ríkislögreglustjóra er kölluð Víkingasveitin og er eina deild lögreglunnar á Íslandi sem ber skotvopn. Í Víkingasveitinni eru um 50 lögreglumenn sem sinna venjulegum löggæslustörfum dags daglega, en bregðast við sérstökum hættum og erfiðum verkefnum þegar þess þarf. Víkingasveitin sér til dæmis um að afvopna hættulega menn, lögreglustörf sem krefjast köfunar eða fallhlífastökkva, eyða sprengjum, verjast mögulegum hryðjuverkaárásum, standa vörð um opinberar heimsóknir, koma í veg fyrir njósnir o.fl. Víkingasveitin beitir þó aldrei valdi nema í neyðartilfellum.
 

Friðargæslan

Íslenska friðargæslan samanstendur af 30 sérþjálfuðum vopnuðum einstaklingum sem sinna eftirliti, gæslu, neyðarastoð o.fl. á stríðshrjáðum svæðum heimsins. Hún starfar í samstarfi við NATO (sjá neðar) og sameinuðu þjóðirnar og hefur meðal annars verið við störf í Írak, Kosovo og Afganistan.
 

Gamla herstöðin

Ísland var hernumið af Bretum árið 1940 og síðan af Bandaríkjamönnum 1941. Tíu árum seinna byggðu Bandaríkjamenn svo herstöð í Keflavík og sáu um varnir landsins allt til ársins 2006, þegar þeir yfirgáfu stöðina. Herstöðin stendur enn, en þar er enginn her lengur, heldur íbúðabyggð, skólar og fleira.
 

Atlantshafsbandalagið

Atlantshafsbandalagið, eða NATO, var stofnað 1949 til þess að sinna friðargæslu og standa að sameiginlegum vörnum þjóða í Evrópu og Norður-Ameríku. Meginregla NATO er sú að innrás í eitt NATO-ríki, jafngildir innrás í öll NATO-ríkin. Ísland er eitt af stofnendum NATO, og tekur þátt í starfsemi þess, t.d. með því að sjá um rekstur herflugvalla í Afganistan og Kosovo, með starfsemi friðargæslusveitarinnar o.fl. Skiptar skoðanir eru um ágæti NATO og það hvort Ísland ætti að taka þátt í starfi þess.
 
 
Greinin er unnin í samstarfi við Áttavitann