Navigation path

Left navigation

Additional tools

Other available languages: EN FR DE ES IT EL

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins

Fréttatilkynning

Brussel / Barselóna, 6. júní 2013

Verðlaun Evrópusambandsins fyrir nútímabyggingarlist/Mies van der Rohe verðlaunin 2013 veitt og 25 ára afmæli fagnað

Sigurvegarar verðlauna Evrópusambandsins fyrir nútímabyggingarlist 2013/Mies van der Rohe verðlaunanna verða heiðraðir á morgun. Verðlaunaafhendingin markar 25 ára afmæli verðlaunanna og verður haldin í Mies van der Rohe skálanum í Barselóna. Þeir sem hlutu aðalverðlaun þessa árs voru Henning Larsen Arkitektar, Stúdíó Ólafur Elíasson og Batteríið Arkitektar fyrir Hörpu, tónlistar- og ráðstefnumiðstöðina í Reykjavík, á Íslandi. (sjá IP/13/376). Þau sem hlutu sérstöku verðlaunin sem Upprennandi Arkitektar voru María Langarita og Víctor Navarro fyrir Nave de Música Matadero (Red Bull Tónlistarakademían) sem var byggð til að hýsa tónlistarhátíð í Madríd.

Sögustúfurinn að baki byggingar tónlistarhússins Hörpu getur hvatt menn til dáða. Bygging þess hófst skömmu fyrir efnahagslegu áföllin sem skóku Ísland og Evrópu og byggingin hefði hæglega getað orðið að minnismerki um hrunið. Þess í stað voru bæði ríkisstjórnin og Reykjavíkurborg staðráðin í að ljúka verkinu. Síðan þá hefur Harpa orðið að tákni um nýjar vonir og endurnýjun, þar sem yfir 2 milljónir manna hafa heimsótt húsið frá því það var opnað árið 2011. Það er einstaklega gott dæmi um það hvernig fjárfesting í menningar- og listrænum greinum getur skapað atvinnu og víðtækan efnahags- félags- og menningarlegan ávinning. Von mín er sú, að sagan um Hörpu muni hvetja fleiri fjárfesta, jafnt í opinbera- sem í einkageiranum, til þess að styðja við bakið á því geysi hæfileikaríka fólki sem við eigum í nútímabyggingarlist í Evrópu, sagði Androulla Vassiliou, Evrópusviðsstjóri fyrir menntun, menningu, fjöltyngi og æskulýðsmál.

Jan Truszczyński, sviðsstjóri framkvæmdastjórnarinnar á sviði mennta- og menningarmála, og Xavier Trias, borgarstjóri í Barselóna, munu færa vinningshöfunum verðlaun að upphæð €60.000 (aðalverðlaun) að viðbættum €20.000 (upprennandi arkitekt). Sigurvegarar munu einnig fá styttur eftir katalónska listamanninn Xavier Corberó. Að verðlaunaafhendingunni lokinni verður sýningin Uppbygging Evrópu, aldarfjórðungur í byggingarlist opnuð í Museu Nacional d'Art de Catalunya safninu. Þar má sjá líkön af þeim 200 byggingum sem tilnefndar hafa verið til verðlauna allt frá 1988, sem gefur glögga mynd af hinni miklu breidd og gæðum sem nútímabyggingarlist í Evrópu hefur getað státað af síðasta aldarfjórðunginn. Í tilefni sýningarinnar verður gefin út sýningarskrá.

Í Mies van der Rohe skálanum munu einnig fara fram umræður undir yfirskriftinni Að ryðja nýjar brautir, þar sem vinningshafarnir munu leggja orð í belg, auk framúrskarandi arkitekta, gagnrýnenda og námsmanna. Á meðal frummælenda verða Valéry Didelon, Ricardo Devesa, Anne Isopp, Vasa Perović og Ibai Rigby. Síðan munu umræðurnar Að ryðja nýjar brautir , ásamt sýningunni, halda áfram við evrópska háskóla og stofnanir, allt árið 2013 og 2014 sömuleiðis.

Aðdragandinn

Byggingarlistageirann má staðsetja á meðal hinna líflegu skapandi og menningarlegu atvinnugreina í Evrópu. Sjálfur veitir hann rúmlega hálfri milljón manns atvinnu, en skapar auk þess rúmlega 12 milljónir afleiddra starfa í byggingargeiranum. Byggingarlistin telst til hinna skapandi og menningarlegu geira, sem ljá Evrópusambandinu 4.5% af vergri landsframleiðslu þess.

Verðlaun Evrópusambandsins fyrir nútímabyggingarlist - Mies van der Rohe verðlaunin varpa ljósi á framlag evrópskra arkitekta til þróunar á nýjum hugmyndum og tæknilegum lausnum við þéttbýlisskipulag á vorum tímum. Verðlaunin, sem fyrst voru veitt 1987 og fjármögnuð eru sameiginlega af menningaráætlun ESB og Fundació Mies van der Rohe sjóðnum, eru þau mikilsvirtustu á sviði evrópskrar byggingarlistar. Þau eru veitt annað hvert ár til verka sem lokið var við næstu tvö ár þar á undan. Uppástungum um verk sem eiga verðlaunin skilið er komið á framfæri af óháðum sérfræðingum, auk aðildarfélaga í Arkitektaráði Evrópu, öðrum landssamtökum arkitekta og ráðgjafanefnd verðlaunanna.

Verðlaunin eru nefnd eftir Ludwig Mies van der Rohe, sem talinn er meðal helstu frumkvöðla í nútímabyggingarlist á tuttugustu öldinni. Á meðal hans helstu verka má telja Þýska skálann á heimssýningunni í Barselóna 1929, Tugendhatsetrið í Brno í Tékklandi, Seagram bygginguna í New York og Þjóðarlistasafnið í Berlín.

Auk þess að veita viðurkenningu fyrir framúrskarandi afrek á þessu sviði, þá er verðlaunum ESB í nútímabyggingarlist / Mies van der Rohe verðlaununum ætlað að hvetja arkitekta til þess að starfa utan landamæra sinna eigin þjóðlanda og stuðla þannig að því að efla og styrkja sköpunarmáttinn í Evrópu, í samræmi við þau markmið sem lagt er upp með í Evrópa 2020 áætluninni.

Sigurvegarar voru valdir úr hópi 335 verka sem lögð voru fram frá 37 Evrópulöndum. Fimm verk voru síðan valin á sérstakan úrtakslista til að keppa um aðalverðlaunin. Hinir sem kepptu til úrslita voru: Markaðshöllin (Ghent í Belgíu eftir Robbrecht en Daem architecten, Marie-José Van Hee architecten); Superkilen (Kaupmannahöfn, Danmörku eftir BIG Bjarke Ingels Group, Superflex, Topotek1); Heimili fyrir eldriborgara (Alcácer do Sal, Portúgal eftir Aires Mateus Arquitectos) og Metropol Parasol (Sevilla á Spáni eftir J. Mayer H).

Meðlimir dómnefndarinnar, sem völdu þá sem kepptu til úrslita 2013, voru: Wiel Arets, formaður dómnefndar, forstöðumaður, Wiel Arets arkitektar, Maastricht, rektor, College of Architecture, IIT í Chicago; Pedro Gadanho, safnstjóri nútímabyggingarlistar, Museum of Modern Art (MoMA) í New York; Antón García-Abril, forstöðumaður Ensamble Studio; Louisa Hutton, forstöðumaður Sauerbruch Hutton Architects í Berlín; Kent Martinussen, forstjóri The Danske Arkitekter Center (DAC) í Kaupmannahöfn; Frédéric Migaryou, forstjóri Architecture & Design, Pompidoumiðstöðinni í París; Ewa Porebska, aðalritstjóri Architektura-murator í Varsjá; Giovanna Carnevali, ritari dómnefndar, stjórnarmaður í Fundació Mies van der Rohe sjóðnum í Barselóna.

Heildarlistanum yfir verkin 335 má hala niður með því að smella á neðangreind lönd:

Albanía, Austurríki, Belgía, Bosnía og Hersegóvín, Búlgaría, Króatía, Kýpur, Tékkland, Danmörk, Eistland, Finnland, Makedónía (Fyrrverandi lýðveldi Júgóslavíu), Frakkland, Þýskaland, Grikkland, Ungverjaland, Ísland, Írland, Ítalía, Lettland, Liechtenstein, Litháen, Lúxemborg, Malta, Svartfjallaland, Noregur, Pólland, Portúgal, Rúmenía, Serbía, Slóvakía, Slóvenía, Spánn, Svíþjóð, Holland, Tyrkland og Bretland.

Nánari upplýsingar

Tilkynning framkvæmdastjórnarinnar á myndbandi

http://ec.europa.eu/culture

http://www.miesarch.com

Twitter: @VassiliouEU

@EUMiesAward

Facebook: Verðlaun EB í nútímabyggingarlist / Mies van der Rohe verðlaunin

Tengiliðir :

Dennis Abbott (+32 2 295 92 58); Dina Avraam (+32 2 295 96 67)

Mercedes Soler, Gemma Pasqual/ICE (+34 93 215 10 11)


Side Bar